Fótbolti

Ekkert nema sigur kemur til greina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kvennalandsliðið gerði góða ferð til Úkraínu um helgina.
Kvennalandsliðið gerði góða ferð til Úkraínu um helgina. Fréttablaðið/Daníel
Ísland er með forystu í einvíginu gegn Úkraínu í umspili þjóðanna um sæti í úrslitakeppni EM sem fer fram í Svíþjóð næsta sumar. Stelpurnar höfðu betur, 3-2, í fyrri leik liðanna sem fór fram í Sevastopol í Úkraínu á laugardaginn.

Ísland byrjaði frábærlega í leiknum og komst í 2-0 forystu með mörkum Katrínar Ómarsdóttur og Hólmfríðar Magnúsdóttur. Úkraína náði þá að svara fyrir sig með tveimur mörkum en Margrét Lára Viðarsdóttir tryggði Íslandi á endanum sigur.

„Þetta var opinn og skemmtilegur leikur – kannski helst til of opinn," sagði landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson. „Við byrjuðum vel en misstum dampinn eftir að hafa komist í 2-0. Þær voru þá meira með boltann enda Úkraína með tæknilega gott lið sem er hættulegt fram að sækja. En stelpurnar sýndu hvað í þeim býr með því að koma til baka og tryggja sér sigurinn."

Hann segist vera ánægður með þessa niðurstöðu. „Þetta var erfiður leikur gegn góðu liði á útivelli. Það er bæði gott að vinna og skora þrjú útivallarmörk sem gæti reynst dýrmætt. Við erum alsæl með þessa niðurstöðu en þetta er síður en svo búið."

Síðari leikurinn fer fram á Laugardalsvelli á fimmtudagskvöldið. Jafntefli mun duga Íslandi til að koma liðinu á EM næsta sumar en Sara Björk Gunnarsdóttir segir að stefnan sé sett á sigur.

„Markmiðið er að halda hreinu og það mun duga okkur til að komast áfram. Við höfum sýnt að við erum sterkar á heimavelli og þetta er leikurinn sem við höfum allar verið að bíða eftir. Það er ekkert annað en sigur sem kemur til greina hjá okkur," segir hún.

Ísland tryggði sér sæti í úrslitum EM 2009 með 3-0 sigri á Írlandi á köldu októberkvöldi fyrir fjórum árum síðan. Aðstæður voru erfiðar og frost í jörðu.

„Við létum það ekki trufla okkur þó svo að hitt liðið hafi verið að pæla mikið í því. Við höfum áður spilað á skautasvelli og getum gert það aftur gerist þess þörf," segir Sara Björk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×