Enski boltinn

Verður stríð eða friður?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
munu þeir haga sér vel? Augu margra verða á Evra og Suarez í leiknum á morgun.nordicphotos/getty
munu þeir haga sér vel? Augu margra verða á Evra og Suarez í leiknum á morgun.nordicphotos/getty
Loftið verður örugglega lævi blandið á Anfield á morgun er Liverpool tekur á móti Man. Utd. Þetta er fyrsti heimaleikur Liverpool síðan skýrslan um Hillsborough kom út og einnig í fyrsta skipti sem Patrice Evra snýr aftur á Anfield eftir uppákomuna með Luis Suarez í fyrra.

Evra sakaði þá Suarez um kynþáttaníð í sinn garð og fékk Suarez átta leikja bann í kjölfarið. Það var Suarez ekki sáttur við, ásamt fleirum.

Bæði félög leggja mikið upp úr því að bæði leikmenn og stuðningsmenn verði til friðs af virðingu við hina 96 sem féllu á Hillsborough á sínum tíma. Það verður þó örugglega undiralda vegna Evra og Suarez, bæði innan og utan vallar.

„Við höfum gert okkar til þess að allt fari vel fram og Liverpool hefur gert það sama. Skilaboðunum hefur verið komið á framfæri," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd.

Ferguson hefur staðfest að Wayne Rooney muni ekki verða klár í slaginn, ekki frekar en Ashley Young.

Nemanja Vidic, fyrirliði Man. Utd, hefur einnig stigið fram fyrir skjöldu og biðlað til stuðningsmanna síns liðs að haga sér vel á þessum sérstaka leik.

„Fótbolti er mikilvægur en aldrei eins mikilvægur og lífið sjálft. Það er mikil saga á milli félaganna og mikilvægt að allir sýni hver öðrum virðingu. Við verðum öll að setja gott fordæmi fyrir aðra á þessum degi," sagði Vidic.

Liverpool-goðsögnin Robbie Fowler kom síðan með þá fínu hugmynd að þeir Suarez og Evra myndu leggja saman blóm á völlinn fyrir leikinn.

Liverpool er ekki enn búið að vinna leik í vetur en mætir til leiks með sitt sterkasta lið enda fengu ungu strákarnir að spila gegn Young Boys í Evrópudeildinni.

Þetta verður 186. leikur liðanna en United hefur unnið 72, Liverpool 62 og í 51 skipti hefur leik liðanna lyktað með jafntefli. Liverpool hefur aftur á móti ekki tapað í síðustu fimm leikjum gegn Man. Utd á Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×