Fótbolti

Alfreð: Ég get spilað með hvaða leikmanni sem er

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð í leik með hollenska liðinu Heerenveen.nordicphotos/getty
Alfreð í leik með hollenska liðinu Heerenveen.nordicphotos/getty
Alfreð Finnbogason vonast til að fá tækifæri í byrjunarliði Íslands gegn Noregi, sérstaklega þar sem Kolbeinn Sigþórsson er fjarverandi vegna meiðsla. Alfreð hefur gert það gott í sumar, fyrst með sænska liðinu Helsingborg og svo með Heerenveen í Hollandi þar sem hann er nú.

„Ég er nú að byrja nýtt ævintýri í Hollandi. Það byrjar vel og ég er í flottum málum. Sjálfstraustið er gott eftir að hafa spilað vel og skorað mikið í Svíþjóð," sagði Alfreð sem skoraði bæði mörkin í 2-2 jafntefli Heerenveen gegn Ajax í hollensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Hann gerir vitanlega tilkall til sætis í byrjunarliðinu í kvöld. „Mér finnst ég hafa gert það sem þarf til. Ég hef staðið mig vel með mínu félagsliði og meira er ekki hægt að gera. Nú er það þjálfarans að taka ákvörðun," sagði Alfreð en hann hefur aldrei verið í byrjunarliði Íslands undir stjórn Lagerbäcks. Eins og sést í meðfylgjandi töflu hefur hann spilað í samtals 48 mínútur undir hans stjórn og skorað á þeim tíma eitt mark – gegn Svartfellingum.

Lagerbäck vill helst spila 4-4-2 og er það kerfi sem Alfreð þekkir vel. „Ég spilaði í tveggja manna framlínu í Svíþjóð í allt sumar og núna er ég fremsti maður í 4-3-3. Mér er í raun alveg sama með hverjum ég spila og í hvaða kerfi. Ég vil helst vera í sókninni enda hefur það verið mín staða síðasta árið."

Alfreð vonast auðvitað eftir sigri í kvöld og segir að nú sé tímbært að leggja Norðmenn. „Við höfum átt góða kafla í leikjum okkar í síðustu keppnum, sérstaklega gegn Noregi. Við unnum þá fáa leiki og er nú kominn tími til að hætta því kjaftæði. Við þurfum að ná í úrslit – um það snýst þetta allt saman."

Mínútur á milli marka

Fimm leikmenn hafa skorað í leikjum Íslands undir stjórn Lagerbäck:

Alfreð Finnbogason (1 mark) 48,0 mín.

Kolbeinn Sigþórsson (4) 48,3

Arnór Smárason (1) 99,0

Hallgrímur Jónasson (1) 270,0

Birkir Bjarnason (1) 335,0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×