Innlent

Mál Svedda eru enn í rannsókn

Sverrir Þór Gunnarsson
Sverrir Þór Gunnarsson

Mál Sverris Þórs Gunnarssonar, Svedda tannar, er enn til rannsóknar hjá lögreglunni í Rio de Janeiro í Brasilíu. Hann situr enn í varðhaldi vegna málsins og óvíst er hvort og þá hvenær hann verður framseldur til Spánar vegna eldri dóms, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Sverrir var handtekinn í byrjun júlí í kjölfar þess að yfir fimmtíu þúsund e-töflur fundust í farangri brasilískrar konu á Tom Jobim-flugvellinum í Rio. Hann hafði komið með sama flugi og hún frá Lissabon í Portúgal en farið óáreittur í gegnum tollskoðun á fölsku, íslensku vegabréfi.

Sverrir var færður í Ary Franco-fangelsið í Água Santa, nærri Rio de Janeiro. Síðan hefur lögregla rannsakað málið og meðal annars verið í sambandi við íslensk yfirvöld vegna þess.

Eftirgrennslan brasilísku lögreglunnar leiddi í ljós að Sverrir var með óafplánaðan níu ára fangelsisdóm á bakinu á Spáni vegna fíkniefnasmygls. Hugsanlegt er að hann verði framseldur þangað, en hins vegar er allt eins líklegt að það yrði ekki fyrr en að máli hans í Brasilíu verður að fullu lokið – jafnvel eftir að hann hefur afplánað fangelsisrefsingu.

Íslensk lögregluyfirvöld hafa haft mál til rannsóknar sem tengjast Sverri. Ólíklegt er að hann sé á leið til Íslands í bráð svo að leiða megi þau til lykta.- sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×