Innlent

Fossvogsbrú yrði tákn aukinnar samvinnu

Borgarstjóri og formaður borgarráðs heimsóttu í gær bæjarstjórann í Kópavogi og aðra forystumenn meirihlutaflokkanna þar.
Borgarstjóri og formaður borgarráðs heimsóttu í gær bæjarstjórann í Kópavogi og aðra forystumenn meirihlutaflokkanna þar. Mynd/S. Björn Blöndal

Jón Gnarr borgarstjóri og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri hittust í Kópavogi í gær og ræddu um möguleikann á nýrri brú yfir Fossvog.



„Þetta er skemmtileg hugmynd sem hefur verið til umræðu í Kópavogi í nokkur ár. Brúin yrði nýr og umhverfisvænn valkostur í samgöngum og táknmynd aukinnar samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ármann bæjarstjóri.



„Ég er mjög hrifinn af þessari hugmynd, bæði fyrir hjólandi og gangandi og hugsanlega líka fyrir strætó,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.



Hugmynd sem nú er í umræðunni snýst eingöngu um brú fyrir hjólareiðamenn og göngufólk. Aðspurður segir Dagur ekki víst að miklu dýrara yrði að gera brúna einnig akfæra fyrir strætisvagna. „Hugmyndin er að tæknimönnum verði falið að finna út úr því hvort breyta þurfi hönnunarforsendum mikið,“ svarar Dagur og bætir við brúin gæti létt mjög mikið á stórum umferðaræðum.



Brú yfir Fossvog var í vinningstillögu um skipulag Vatnsmýrarinnar fyrir nokkrum árum en hugmyndin er miklu eldri en það. Í samkeppni um skipulag Fossvogs árið 1961 lagði Sigurlaug Sæmundsdóttir arkitekt til akbrú úr Kársnesi yfir í Reykjavík. „Það þótti alveg fjarstæðukennt að ætla að brúa Fossvoginn,“ segir Sigurlaug um viðbrögðin á þeim tíma. - gar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×