Innlent

Með hreindýr í túninu heima

Í túninu heima Þetta hreindýr er búið að koma sér haganlega fyrir við bæinn hjá Guðjóni Smára. mynd/guðjón smári
Í túninu heima Þetta hreindýr er búið að koma sér haganlega fyrir við bæinn hjá Guðjóni Smára. mynd/guðjón smári
Þegar Guðjón Smári Agnarsson kom sér fyrir á bænum Skála við Berufjörð árið 2003 voru oft um fimmtán hreindýr þar á vappi í grenndinni. "Þá þótt mér þetta bara skemmtilegt en nú þegar þau eru orðin tvö hundruð þá horfir þetta öðruvísi við."

Hann hefur lent í mestu vandræðum með að halda dýrunum í skefjum en þau eru ekki aðeins á vappi á túninu heldur eiga þau það til að koma alveg að húsinu. Það versta segir Guðjón Smári vera að hann sé með mikla skógrækt á svæðinu sem á verulega erfitt uppdráttar af þessum sökum. Segir hann sumar plönturnar ekki komast upp þar sem þær séu gleyptar jafnóðum. Þar að auki eyðileggi þau stærri tré og skemmi girðingarstaura og hlið. En hvað er til ráða? "Ég hreinlega veit það ekki, það er mjög erfitt að eiga við svona stóra hjörð. Ég sé enga lausn í sjónmáli."

Í nálægum byggðum eru menn strax farnir að óttast svipað ástand. Hrafn Baldursson, íbúi á Stöðvarfirði, hefur áhyggjur af skógræktinni sem er þar innan við bæinn og hefur sent bæjarráði Fjarðabyggðar bréf þar sem hann hvetur til fyrirbyggjandi aðgerða svo örlög plantna þar verði ekki þau sömu og í Berufirði. Nú þegar skjóta dýrin upp hornóttum kollinum við Stöðvarfjörð og vill Hrafn að brugðist verði við áður en það verður of seint.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×