Enski boltinn

Dramatískt jafntefli á Goodison Park

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leighton Baines skoraði eftir laglegt samspil við Steven Pienaar.
Leighton Baines skoraði eftir laglegt samspil við Steven Pienaar. Nordic Photos / Getty Images
Everton og Newcastle skildu jöfn, 2-2, í hádramatískum leik í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Demba Ba jafnaði tvívegis fyrir gestina frá Newcastle eftir að hafa komið inn á sem varamaður í hálfleik.

Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Leighton Baines kom þeim yfir með marki eftir laglegan samleik við Steven Pienaar. Newcastle var svo nálægt því að jafna þegar að Leon Osman var næstum búinn að stýra knettinum í eigið mark en Baines varði á línu.

Ba var svo búinn að vera inn á í aðeins nokkrar mínútur þegar hann jafnaði metin fyrir Newcastle í upphafi síðari hálfleiks.

Everton tók svo aftur völdin í leiknum og kom tvívegis boltanum yfir línuna en án þess þó að mark væri dæmt gilt. Fyrst skoraði Marouane Fellaini af stuttu færi en var dæmdur rangstæður. Endursýningar í sjónvarpi sýndu að það hafi verið tæpur dómur.

Mark Williamsson, leikmaður Newcastle, virtist svo hafa varið skalla frá Victor Anichebe á marklínu en aftur sýndu endursýningar í sjónvarpi að ákvörðun aðstoðardómarans um að dæma ekki mark hafi líklega verið röng, enda fór boltinn allur yfir línuna.

Anichebe skoraði svo loksins löglegt mark fyrir Everton á 88. mínútu með laglegu skoti og virtist hafa tryggt sínum mönnum sigur. En allt kom fyrir ekki. Newcastle komst í skyndisókn og aftur barst boltinn til Ba sem náði að stýra honum í netið.

Þar við sat en Everton er nú með sjö stig eftir fjóra leiki en Newcastle fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×