Enski boltinn

Peter Crouch: Ég vil spila fyrir enska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Crouch lifir enn í voninni um að fá að spila með enska landsliðinu þrátt fyrir að þjálfarinn Roy Hodgson vilji ekki velja hann. Hodgson valdi Crouch ekki í landsliðshópinn á dögunum þrátt fyrir meiðsli hjá mörgum sóknarmönnum liðsins.

Hodgson gaf þá ástæðu að Crouch hafi ekki verið tilbúinn að vera til taks síðasta sumar ef einhver brottföll yrðu í enska EM-hópnum. Peter Crouch minnti á sig með því að skora á móti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina en það er hægt að sjá markið með því að smella hér fyrir ofan.

Crouch lék sinn síðasta landsleik fyrir tveimur árum en hann hefur skorað 22 mörk í 42 landsleikjum sem er frábær tölfræði hjá þessum 31 árs gamla framherja.

„Ef ég fæ tækifæri til að spila fyrir enska landsliðið á ný þá mun ég stökkva á það. Ég er samt ekki að hugsa mikið um það og einbeiti mér bara af því að spila eins vel og ég get fyrir Stoke. Það væri samt frábært ef kallið kæmi," sagði Peter Crouch.

„Þetta var ekki spurning um að vera til taks. Ég held að hann hafi viljað að ég spilaði einn af vináttuleikjunum og færi svo heim. Við ræddum saman en það er best að það samtal verði áfram á milli mín og hans," sagði Crouch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×