Fótbolti

Adriano hélt sér þurrum í þrettán daga hjá Flamengo

Adriano var ekkert sérstaklega kátur með athyglina sem hann fékk er hann reyndi að fá sér í ró og næði.
Adriano var ekkert sérstaklega kátur með athyglina sem hann fékk er hann reyndi að fá sér í ró og næði.
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Adriano á enn í stórkostlegum vandræðum með sjálfan sig og á erfitt með að halda sér frá flöskunni. Ferill hins hæfileikaríka Adriano er ein samfelld sorgarsaga. Eftir að hafa orðið einn hættulegasti framherji heims hjá Inter hefur leiðin legið hratt niður á við.

Adriano hefur verið að glíma við drykkjuvandamál sem og alvarlegt þunglyndi. Óttuðust margir af hans nánustu að hann myndi taka eigið líf. Svo illa var hann haldinn.

Kappinn er nýbúinn að semja við uppeldisfélag sitt, Flamengo, og lýsti hann því yfir í síðustu viku að þetta væri síðasta tækifæri hans til þess að rífa sig upp á afturendanum.

Sagðist hann þá ætla að leggja hart að sér með það að markmiði að komast í brasilíska landsliðið fyrir HM 2014.

Nú aðeins þrettán dögum eftir að kappinn skrifaði undir hjá Flamengo skrópaði hann á æfingu. Síðar sama dag fannst hann í fátækrahverfi þar sem hann sat að sumbli.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá mynd af kappanum eftir að uppgötvaðist hver það væri sem var að fá sér á skítugri knæpu í hverfinu.

Vandræðaganginum er því hvergi nærri lokið og spurning hvað verður um blessaðan manninn núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×