Innlent

140 þúsund krónur í skólamáltíðir á ári

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Skólamáltíðir í grunnskólum landsins kosta að meðaltali þrjú hundruð og áttatíu krónur á dag. Það gera yfir fimmtán þúsund krónur á mánuði fyrir fjölskyldu með tvö börn á grunnskólaaldri. Verð á máltíð er hæst á Álftanesi en lægst í Reykjavík.

Kennsla hófst í grunnskólum landsins í gær. Skólabyrjun fylgja oft aukin útgjöld hjá heimilum við kaup á skólavörum, vetrarfötum og gæslu svo dæmi séu nefnd. Þá þurfa börnin að borða hádegismat og bjóða skólarnir flestir uppá heitan mat í hádeginu gegn gjaldi. Þetta gjald er hins vegar mjög misjafnt eftir sveitarfélögum.

Í Reykjavík er lægsta gjaldið, 310 krónur máltíðin og sama verð er í Mosfellsbæ. Á Seltjarnarnesi kostar skólamaturinn 385 krónur og í Kópavogi 395 krónur. Í Hafnarfirði hækkaði verðið um tuttugu og fimm krónur í haust og kostar nú máltíðin 400 krónur. Í Garðabæ er verðið 428 krónur. Álftanes er með hæsta verðið á skólamáltíðum eða 490 krónur. Þá kostar maturinn 350 krónur á Akureyri.

Meðalverð á skólamáltíð í þessum sveitarfélögum er því tæpar 384 krónur eða 7680 krónur á mánuði. Fyrir fjölskyldu með tvö börn á grunnskólaaldri er heildarkostnaðurinn því orðinn fimmtán þúsund og þrjú hundruð og sextíu krónur á mánuði eða um 138 þúsund krónur fyrir allt skólaárið.

Fyrirtækið Skólamatur ehf. sér um skólamáltíðir fyrir þrjátíu grunnskóla á suðvesturhorninu og gera þau þjónustusamninga við sveitarfélögin. Það er hins vegar mismunandi hversu mikið sveitarfélög niðurgreiða máltíðir til nemenda og eru það bæjarstjórnir eða borgarráð sem ákvarða það reglulega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×