Enski boltinn

David Silva samdi við Englandsmeistaralið Man City á ný

David Silva samdi við Man City fram til ársins 2017.
David Silva samdi við Man City fram til ársins 2017. Nordic Photos / Getty Images
David Silva hefur skrifað undir samning við Englandsmeistaralið Manchester City og gildir samningurinn út leiktíðina 2016-2017. Spænski landsliðsmaðurinn kom til Man City frá Valencia sumarið 2010 og var hann lykilmaður í velgengni Man City á síðustu leiktíð þar sem liðið fagnaði enska meistaratitlinum í fyrsta sinn frá árinu 1968.

Silva segir að markmiðið sé að vinna Meistaradeild Evrópu en liðið leikur í kvöld gegn Real Madrid á útivelli í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

„Ég er mjög ánægður og mér líður vel hjá Manchester City. Mér líður eins og ég eigi heima hérna. Við náðum að vinna ensku úrvalsdeildina og tvo aðra titla, liðið er enn að bæta sig og við höfum sett stefnuna á að vinna Meistaradeild Evrópu. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég vil vera hérna áfram," sagði Silva m.a. í gær þegar greint var frá samningnum.

Hinn 26 ára gamli Silva mun fá um 200.000 pund í laun á viku, eða sem nemur um 40 milljónum kr. Ef gengi Man City verður með svipuðum hætti og á síðustu leiktíð gæti þessi upphæð farið í allt að 50 milljónir kr. á viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×