Enski boltinn

Mark Hughes pirraður út í umræðu um handbönd

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/getty
Mark Hughes, knattspyrnustjóri QPR, segir handabönd í aðdraganda knattspyrnuleikja geta leitt til vanvirðingar en ekki virðingar eins og markmiðið sé.

QPR tekur á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag. Ef frá er talin útkoma skýrslu um Hillsborough málið hefur fátt verið meira rætt meðal knattspyrnuáhugafólks á Bretlandseyjum en það hvort Anton Ferdinand og John Terry muni takast í hendur fyrir leikinn.

„Þegar ég sá listann yfir líklegar spurningar sem ég þyrfti að svara á blaðamannfundinum í dag voru níu um handaböndin og ein um Hillsborough. Fáránlegt," sagði Hughes á umræddum blaðamannafundi vegna leiksins.

Eins og frægt er orðið sakaði Ferdinand, miðvörður QPR, Terry, fyrirliða Chelsea, um kynþáttaníð í sinn garð í viðureign liðanna á Loftus Road á síðasta tímabili. Terry var sýknaður fyrir dómstólum í Englandi en enska knattspyrnusambandið á þó enn eftir að taka málið fyrir.

QPR og Chelsea mættust tvívegis síðar á tímabilinu í fyrra. Í bæði skiptin var ákveðið að sleppa handaböndum fyrir leikina.

„Aðdragandi þessa leiks hefur verið fáránlegur og allir hafa einbeitt sér að þessu eina atriði sem gerist áður en sjálfur leikurinn er flautaður á. Mér fannst það hjálpa til í þau skipti sem handaböndunum var sleppt á síðustu leiktíð. Allir tókust í hendur í leikslok og það var ekkert vandamál," sagði Hughes.

Leikur QPR og Chelsea hefst á Sport 4 klukkan 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×