Fótbolti

Gekk illa hjá Fabiano að fá gult spjald

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Luis Fabiano, framherji Sao Paulo, skoraði mark í þægilegum 4-0 sigri á Botafogo í deildarleik í Brasilíu í gær. Það gekk hins vegar öllu verr fyrir kappann að næla sér í gult spjald.

Fabiano, sem spilaði á árum áður með Sevilla, viðurkenndi í samtali við blaðamenn eftir leikinn að hann hefði nælt sér viljandi í gult spjald. Framundan er langt ferðalag til Salvador þar sem liðið mætir Bahia og vildi Fabiano ná í sitt þriðja gula spjald til að geta tekið út leikbann í þeim leik.

„Þegar ég vil fá gult spjald tekst það ekki. Þegar ég forðast þau rignir þeim niður," sagði framherjinn kraftmikli sem er gulu og rauðu spjöldunum vel kunnugur.

„Ég vildi hvíla í leiknum gegn Bahia. Ferðalagið er langt og ég er nýkominn aftur eftir meiðsli. Ég vildi búa mig undir leikina sem framundan eru," sagði Fabiano.

Þjálfari liðsins, Ney Franco, var ekkert að fela þá staðreynd að hann hefði beðið Fabiano um að ná sér í spjald.

„Ég bað hann um að ná í gult spjald. Hann tók sér langan tíma í að taka innkast og reglan er klár. Það á að spjalda hann," sagði Franco en Fabiano uppskar að lokum gult spjald fyrir leiktöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×