Enski boltinn

Þrjú mörk á átta mínútum tryggði Man Utd sigurinn gegn QPR

Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester United sýndi styrk sinn í dag þegar liðið lagði botnlið QPR 3-1 á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. QPR, sem rak Mark Hughes knattspyrnustjóra liðsins úr starfi í gær er enn án sigurs og er það eina liðið í öllum deildarkeppnum á Englandi sem enn hefur ekki náð að vinna leik. QPR komst yfir í leiknum í upphafi síðari hálfleiks en þrjú mörk á átta mínútna kafla tryggði Man Utd stigin þrjú og efsta sæti deildarinnar.

Jamie Mackie kom gestunum frá London yfir með marki á 52. mínútu. Jonny Evans jafnaði fyrir heimamenn á 64. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar kom skoski landsliðsmaðurinn Darren Fletcher Man Utd yfir með góðu skallamarki eftir hornspyrnu. Fyrsta mark Fletchers fyrir Man Utd í rúmt ár en hann hefur glímt við erfið veikindi undanfarin misseri. "Litla baunin" frá Mexíkó, Javier Hernández gulltryggði sigurinn með marki á 72. mínútu.

Man Utd er á toppi deildarinnar með 30 stig eftir 13 leiki en Englandsmeistaralið Manchester City kemur þar á eftir með 28 stig en liðið leikur á morgun gegn Chelsea í stórleik umferðarinnar.

Leikurinn var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og Sport 2 HD.

Hér fyrir neðan má sjá allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×