Íslenski boltinn

Björgólfur Takefusa til liðs við Valsmenn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Framherjinn Björgólfur Takefusa hefur gengið frá samningi við Valsmenn. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Boltanum á X-inu 977 í dag.

„Ég er ótrúlega ánægður að þetta skildi ganga eftir. Að sama skapi er erfitt að fara úr Víkinni," sagði Björgólfur sem skrifar undir tveggja ára samning við Val síðar í dag.

Björgólfur segir hafa spilað stærstan þátt að spila í efstu deild með Valsmönnum.

„Eftir að ég hitti mennina í kringum klúbbinn og Magga Gylfa þá varð ég alltaf spenntari fyrir verkefninu. Ég held að það séu mjög skemmtilegir tímar framundan hjá Val."

Björgólfur hefur verið samningsbundinn Víkingum undanfarin tvö ár. Síðasta tímabil var hann þó í láni hjá Fylki.

Björgólfur er á 32. aldursári. Hann hefur skorað 111 mörk í 225 leikjum í deild og bikar frá því hann hóf að spila með Þrótti í meistaraflokki.

Ljóst er að töluverðar breytingar verða á liði Vals frá því sem var í sumar. Arnar Sveinn Geirsson, Fjalar Þorgeirsson, Ingólfur Sigurðsson og Sigurður Egill Lárusson hafa allir gengið í raðir Valsmanna. Þá hafa meðal annars Atli Sveinn Þórarinsson og Ásgeir Þór Ingólfsson yfirgefið herbúðir Hlíðarendapilta.

Valsmenn höfnuðu í 8. sæti efstu deildar karla síðastliðið sumar. Magnús Gylfason er nýráðinn þjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×