Rafael Benitez, fyrrum stjóri Liverpool, hefur verið atvinnulaus síðan að hann var rekinn frá Inter Milan í árslok 2010 og er hann jafnan orðaður við öll störf sem losna í bestu deildunum í Evrópu. Spánverjinn ætlar að bíða þolinmóður eftir rétta starfinu.
„Ég er ekki bara að leita að einhverju starfi því ég mun ekki fara til félags nema metnaður þess jafnist á við metnað minn um að vinna titla," sagði Rafael Benitez í viðtali við heimasíðu FIFA.
„Ég hef öðlast reynslu frá því að stýra liðum á Ítalíu, á Spáni og á Englandi og ég get því metið störfin sem bjóðast og fundið út hvaða starf sé það rétta fyrir mig," sagði Benitez.
Benitez endaði á því að geta Inter Milan að Heimsmeisturum félagsliða en hætti síðan fljótlega eftir það eftir ósætti við forseta félagsins Massimo Moratti.
Benitez hefur verið sterklega orðaður við Chelsea á síðustu vikum og þá sjá margir fyrir sér að hann snúi aftur á Anfield enda hefur lítið gengið hjá Liverpool síðan að hann hætti með liðið vorið 2010.
