Enski boltinn

Sagna efins um leikmannastefnu Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bacary Sagna, leikmaður Arsenal, segir það óhjákvæmilegt að velta fyrir sér málunum þegar félagið ákveður að selja tvo bestu leikmenn síðasta tímabils.

Robin van Persie var seldur til Manchester United og Alxander Song fór til Barcelona. „Ég átti von á því að Robin myndi fara," sagði Sagna við franska fjölmiðla en Van Persie átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal.

„En það kom mér mjög á óvart að Alex skyldi fara. Hann er 24 ára gamall og átti þrjú ár eftir af sínum samningi. Er það nema von að maður spyrji sig spurninga."

„Stuðningsmenn koma stundum upp að mér úti á götu og skil ég vel að þeir skuli vera pirraðir á ástandinu. Ég er í sömu stöðu og skil þetta ekki allt saman."

Samir Nasri og Gael Clichy fóru báðir frá Arsenal til Manchester City fyrir ári síðan og í vor urðu þeir Englandsmeistarar. „Ég sá þá lyfta bikarnum í vor. Ég vil líka fá að upplifa þá tilfinningu."

Samningur Sagna rennur út sumarið 2014 en enn sem komið er hefur enginn rætt við hann um að framlengja samnigninn. Sagna er 29 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×