Fótbolti

Fjölmiðlar í Seattle fá ekki að tala við Eið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt frétt í dagblaðinu Seattle Times fengu blaðamenn ekki viðtal við Eið Smára Guðjohnsen eftir æfingu Seattle Sounders í gær þegar eftir því var leitað.

Hann æfði í annað skipti með liðinu í gær og sögðu þeir leikmenn sem ræddu við blaðið að það væri mjög gott að æfa með Eiði Smára.

„Ferilsskráin hans talar sínu máli," sagði Eddie Johnson sem æfði með Eiði Smára í tvo mánuði hjá Fulham á síðasta ári. „Ég hef áður æft og spilað með honum og er hann mikill fagmaður. Hann er líka leikmaður í hæsta gæðaflokki og liðið fengi dýrmæta reynslu með honum."

Fredy Montero fór einnig fögrum orðum um Eið Smára en hann og Johnson eru báðir sóknarmenn. „Hann er frábær leikmaður. Ég mun reyna að læra eins mikið af honum og ég get. Hann hefur unnið marga titla og spilað með mörgum góðum liðum um allan heim. Það er heiður að fá að vera með honum og vonandi verður hann hér áfram."

Þjálfari liðsins, Sigi Schmid, vildi ekki tjá sig um líkurnar á því hvort Eiður fengi samning við félagið en sagði að það væri aldrei til skaðar að styrkja leikmannahópinn.

„Við stefnum á því að vinna titilinn í ár. Ef okkur stendur til boða að styrkja liðið munum við gera það sem við getum til þess."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×