Enski boltinn

Van Persie hefur verið Liverpool erfiður síðustu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie skoraði tvö mörk fyrir Arsenal á Anfield í fyrra.
Robin van Persie skoraði tvö mörk fyrir Arsenal á Anfield í fyrra. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollendingurinn Robin van Persie tekur í dag þátt í fyrsta sinn í slag erkifjendanna Manchester United og Liverpool en hann var öflugur með Arsenal í síðustu leikjum sínum á móti Liverpool.

Van Persie er með fjögur mörk í síðustu fimm deildarleikjum sínum á móti Liverpool og ætti því að geta hjálpað sínum mönnum í Manchester United að vinna sinn fyrsta sigur á Anfield í tæp fimm ár.

Robin van Persie skoraði bæði mörk Arsenal í 2-1 sigri á Liverpool í mars á þessu ári en það er einmitt síðasti leikur hans á Anfield. Hann skoraði einnig í 1-1 jafntefli á móti Liverpool í apríl 2011 og í 1-1 jafntefli á móti Liverpool í desember 2008.

Robin van Persie hefur byrjað frábærlega með Manchester United en hann er búinn að skora fjögur mörk í tveimur fyrstu leikjum sínum í byrjunarliðinu. Van Persie kom inn af bekknum í síðasta leik á móti Wigan en hafði þar á undan skoraði þrennu á móti Southampton og eitt mark á móti Fulham.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×