Kevin Sammut, landsliðsmaður Möltu, hefur verið úrskurðaður í ævilangt bann frá evrópskri knattspyrnu af Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.
Sammut braut reglur sambandsins en honum er gefið að sök að hafa reynt að hagræða úrslitum í landsleik Norðmanna og Möltu sem fram fór í Osló í júní 2007. Leiknum lauk með 4-0 sigri Norðmanna.
Sammut var dæmdur í tíu ára bann frá knattspyrnu í ágúst en leikmaðurinn og yfirmaður aganefndar UEFA áfrýjuðu úrskurðinum.
Talið er að Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, íhugi að banna leikmanninn frá keppni um heim allan.
