Fótbolti

Löw: Wenger strax búinn að gera Podolski að betri leikmanni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Podolski.
Lukas Podolski. Mynd/AFP
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins, er ánægður með þróun mála hjá Lukas Podolski sem kom til Arsenal frá Köln í sumar. Löw segir að Podolski sé strax búinn að bæta sig sem leikmann eftir aðeins nokkra mánuði hjá Arsene Wenger.

„Ég sagði alltaf að þetta væri gott skref fyrir hann. Það er mjög jákvætt að sjá hvaða framfarir hann er þegar búinn að taka hjá Arsenal. Það er alltaf jákvæð orka í kringum hann og hún er bara sterkari eftir góða reynslu hans hjá Arsenal," sagði Joachim Löw á blaðamannafundi fyrir leik Þjóðverja og Íra í undankeppni HM.

Hinn 27 ára gamli Lukas Podolski er með 2 mörk og 2 stoðsendingar í 7 leikjum með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og hann hefur einnig skorað tvö mörk í Meistaradeildinni.

„Ég get bara talað vel um Podolski og líka ef hann spilar ekki. Ég hef alltaf getað treyst á hann og það gerir hann ómissandi fyrir okkur. Ég met hann mikils," sagði Löw en Lukas Podolski hefur skorað 44 mörk í 103 landsleikjum fyrir Þýskaland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×