Enski boltinn

Pardew heldur örugglega ekki með Senegal á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Papiss Cissé og Demba Ba.
Papiss Cissé og Demba Ba. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle United, gæti misst báða aðalmarkaskorara sína í janúar takist landsliði Senegal að tryggja sér sæti í lokaúrslitum Afríkukeppninnar. Senegal mætir Fílabeinsströndinni um helgina í leik sem ræður til um hvort liðið verður með í Afríkukeppninni og Pardew heldur örugglega ekki með Senegal í þessum leik.

Fílabeinsströndin vann fyrri leikinn 4-2 á heimavelli og er því í góðri stöðu sem minnkar örugglega aðeins áhyggjur Alan Pardew. Papiss Cissé og Demba Ba eru báðir í landsliði Senegal og komist liðið þeirra áfram þá missa þeir af öllum janúarmánuði í enska boltanum.

„Leikur Senegal og Fílabeinsstrandarinnar er risastór leikur fyrir Newcastle United. Ef Senegal vinnur þá missum við báða þessa leikmenn og það þýðir að við yrðum að gera rástafanir í félagsskiptaglugganum," sagði Alan Pardew við Daily Mirror.

Alan Pardew missir reyndar líka mann ef Fílabeinsströndin fer áfram því miðjumaðurinn Cheick Tiote leikur með liði Fílabeinsstrandarinnar.

„Ég mun annaðhvort missa einn heimsklassa leikmanna eða tvo heimsklassa leikmenn. Ég vona frekar að Cheick setji hann og þá missi ég bara einn leikmann. Snúist þetta við þá er það svo sem ekki alslæmt því þá höfum við allavega Cheick Tiote í okkar liði," sagði Alan Pardew.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×