Fótbolti

Lagerbäck: Góður baráttusigur | Vona að Aron hafi lært af mistökunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari, lofaði frammistöðu leikmanna íslenska liðsins eftir sigurinn gegn Albaníu ytra í kvöld.

Leiknum lyktaði með 2-1 sigri íslenska liðsins en hann fór fram við mjög erfiðar aðstæður.

„Þetta var mjög erfiður leikur. Eftir að rigningin byrjaði var þetta bara spurning um að fá strákana til að berjast til síðasta manns. Það er erfitt að spila góðan fótbolta við þessar aðstæður en þeir börðust vel og héldu sínum stöðum, sem var afar mikilvægt," sagði Lagerbäck við Vísi í kvöld.

Hann segist hafa brýnt fyrir sínum leikmönnum að taka enga áhættu við svo erfiðar aðstæður.

„Ég sagði þeim að spila einfalt og taka enga áhættu, sérstaklega á okkar vallarhelmingi. Leikmenn þurftu að halda sínum stöðum því það var ómögulegt að reikna út hvert boltinn myndi fara. Þetta leystu strákarnir mjög vel," sagði Lagerbäck.

Hann segir að fyrir fram hefði hann verið ánægður með að fá sex stig úr fyrstu þremur leikjunum.

„Auðvitað hefði verið best að vera með níu stig en ég er ánægður. Við erum nú búnir með tvö lengstu ferðalögin í riðlinum og nú er um að gera fyrir okkur að safna kröftum og undirbúa liðið eins vel og kostur er fyrir leikinn gegn Sviss á þriðjudaginn."

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði, baðst fyrir leikinn afsökunar á ummælum sínum um albönsku þjóðina.

„Allir geta gert mistök og leikmenn verða að bera ábyrgð á sínum gjörðu. Þetta var vissulega ekki vel orðað hjá honum. Ég ræddi við hann og hann sá mjög eftir orðum sínum og brást skjótt og vel við með því að senda frá sér afsökunarbeiðni. Hann gerði eins vel og hann gat úr aðstæðunum."

Lagerbäck segir að það hafi ekki komið alvarlega til tals að taka hann úr íslenska liðinu vegna málsins. „Við ræddum þetta en niðurstaðan var að hann skyldi spila. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á að leikmenn mínir læri að axla ábyrgð á gjörðum sínum innan vallar sem utan og mér fannst hann bregðast mjög vel við þessu óheppilega máli."

Lagerbäck skipaði Aron Einar sem fyriliða íslenska landsliðsins áður en núverandi undankeppni hófst. „Við höfum ekki rætt um hvort að hann eigi að stíga til hliðar sem fyrirliði. Við munum taka því rólega í kvöld og takast svo á við þetta. En vonandi verður þetta til þess að Aron hafi lært af sínum mistökum og muni haga sér óaðfinnanlega í framtíðinni."


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Albanía - Ísland 1-2 | Gylfi skoraði sigurmarkið

Ísland vann sögulegan sigur, 1-2, á Albaníu við fáranlegar aðstæður í Tírana í kvöld. Þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins á Balkanskaganum. Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Íslandi sigurinn með algjöru gullmarki. Seinka varð seinni hálfleik vegna þrumuveðurs og völlurinn var á floti allan leikinn.

Geir: Eins og að skora sjálfsmark fyrir leik

"Við erum að reyna að tefla fram okkar sterkasta knattspyrnuliði á eftir. Aron Einar er hluti af því liði,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, við Vísi nú síðdegis.

Aron Einar biðst afsökunar

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson hefur beðist auðmjúklega afsökunar á óviðeigandi ummælum sem hann lét falla um Albana á vefsíðunni fótbolti.net.

Afsökunarbeiðni Arons Einars

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann harmar ummæli sín um albönsku þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×