Fótbolti

Umfjöllun: Albanía - Ísland 1-2 | Gylfi skoraði sigurmarkið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gylfi var hetja Íslands í kvöld.
Gylfi var hetja Íslands í kvöld. Mynd/Vilhelm
Ísland vann sögulegan sigur, 1-2, á Albaníu við fáranlegar aðstæður í Tírana í kvöld. Þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins á Balkanskaganum. Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Íslandi sigurinn með algjöru gullmarki. Seinka varð seinni hálfleik vegna þrumuveðurs og völlurinn var á floti allan leikinn.

Vallaraðstæður voru gríðarlega erfiðar enda hellirigndi og völlurinn var á floti er flautað var til leiks.  Það tók leikmenn beggja liða talsverðan tíma að átta sig á erfiðum aðstæðum.

Það hafði líka nákvæmlega ekkert gerst í leiknum þegar Birkir Bjarnason kom Íslandi yfir. Innkast frá Aroni, Kári framlengir og Birkir komst á bakvið vörnina og skallaði boltann inn. Draumabyrjun.

Albanir tóku öll völd á vellinum eftir markið og pressuðu á íslenska liðið. Það kom því lítt á óvart er Cani jafnaði leikinn. Kantmaðurinn fékk að senda óáreittur í teiginn. Sendingin hnitmiðuð á Cani, sem var á milli tveggja varnarmanna, og eftirleikurinn auðveldur.

Sá er gaf stoðsendinguna var þó líklega rangstæður er hann fékk boltann en það þýddi lítt að væla yfir því.

Fátt markvert gerðist áður en kom að hálfleik fyrir utan að enn bætti í rigninguna og völlurinn fór algjörlega á flot. Í hálfleik var farið yfir stöðuna og því velt upp hvort fresti ætti leiknum vegna veðurs.

Eftir nokkra umhugsun var ákveðið að lengja hálfleikinn um tæpar 20 mínútur og sjá svo til hvort hægt yrði að spila þá.

Það var ákveðið að gera eftir allt saman. Síðari hálfleikur fór því fram við algjörlega glórulausar aðstæður. Var eiginlega frekar spilaður sundknattleikur en fótbolti. Það var galið að spila.

Albönum gekk mun betur í sundboltanum  framan af og lá nokkuð á íslenska liðinu og nokkrum sinnum var liðið heppið að fá á sig mark.

Íslenska liðinu gekk aftur á móti ekkert að hemja boltann í vatnselgnum og hefði stig verið vel þegið miðað við þa stöðu.

Þá steig Gylfi Þór Sigurðsson upp. Hann nældi í aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Hann tók spyrnuna að sjálfsögðu sjálfur og setti spyrnuna í markmannshornið. Boltinn fór í stöngina og inn.

Albanir sóttu allt hvað þeir gátu síðustu mínúturnar en strákarnir héldu einbeitingu og héldu út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×