Fótbolti

Ég vil spila í öllum leikjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
helgi valur Fagnar hér marki í leik með sænska liðinu AIK.nordicphotos/getty
helgi valur Fagnar hér marki í leik með sænska liðinu AIK.nordicphotos/getty
Fótbolti Helgi Valur Daníelsson hefur verið fastamaður í landsliði Lars Lagerbäck en missti af síðustu tveimur leikjum vegna veikinda. Hann fór með liðinu til Albaníu en var kominn með hita strax við komuna til Tírana. Eftir leikinn fór hann aftur til síns heima í Svíþjóð og náði sér fljótt og vel.

„Það er reyndar ekki vitað nákvæmlega hvað var að hrjá mig," segir Helgi Valur við Fréttablaðið. „Það var engin niðurstaða sem fékkst úr öllum þeim rannsóknum sem gerðar voru og talið líklegast að þetta hafi verið einhvers konar vírussýking. Það er ekki talið að þetta hafi verið neitt hættulegt þó svo að það sé vissulega óþægilegt að vita ekki hvað þetta var."

Aldrei fundið fyrir öðru einsHelgi Valur segir að hann hafi veikst nokkuð illa aðfaranótt fimmtudags en leikur Íslands gegn Albaníu fór fram á föstudeginum. „Ég vaknaði með svakalegan hausverk og verk fyrir brjóstinu. Ég hef aldrei fundið fyrir öðru eins áður. Ég gisti því á sjúkrahúsinu næstu nótt og var betri daginn eftir."

Þegar íslenska liðið hélt heim á leið til þess að spila við Sviss á Laugardalsvellinum hélt Helgi Valur aftur til síns heima. Ísland tapaði leiknum, 2-0, og var einnig án Arons Einars Gunnarssonar sem tók út leikbann. Þeir spiluðu saman á miðju Íslands í fyrstu tveimur leikjum liðsins í undankeppni HM 2014 með ágætum árangri.

„Það er alltaf svekkjandi að missa af leikjum en það er lítið við því að gera þegar maður veikist," segir hann. „Það er langt í næsta keppnisleik með landsliðinu og margir leikmenn sem banka á dyrnar. Það eina sem ég get gert er að standa mig með mínu félagsliði fram að næsta leik."

Síðan Lagerbäck tók við íslenska landsliðinu hefur Helgi Valur verið valinn reglulega og notið trausts landsliðsþjálfarans.

„Maður er í raun enn svekktari fyrir vikið því mér finnst ég í fyrsta sinn vera í mikilvægu hlutverki í landsliðinu. Ég hef fengið traust frá þjálfaranum og vil auðvitað taka þátt í flestum leikjum. Maður vill auðvitað ekki tapa sætinu sínu."

Helgi Valur hefur spilað í Svíþjóð í sex ár og neitar því ekki að það hafi ef til vill hjálpað til að landsliðsþjálfarinn sé sænskur og vel að sér í sænska boltanum.

Ari Freyr í miklum metum„Hann fylgist auðvitað vel með öllum leikmönnum. Það getur þó verið að hann horfi á sænsku deildina aðeins öðruvísi augum en margir Íslendingar enda hefur hann tekið leikmenn þaðan sem hlutu ekki náð fyrir augum fyrri þjálfara, eins og Ara Frey [Skúlason] sem hefur þó verið í miklum metum hér úti í mörg ár," segir Helgi Valur.

Ísland mætir næst Andorra í æfingaleik ytra þann 14. nóvember næstkomandi en næsti leikur í undankeppni HM 2014 verður gegn Slóveníu í mars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×