Fótbolti

Katrín Ómars: Við getum gert hluti sem kosta ekki mikinn pening

Kolbeinn Tumi Daðason á Laugardalsvelli skrifar
„Þetta er svona tilfinning þegar maður hefur verið með markmið, stefnt að einhverju, búinn að vinna að því og nær því. Það er sælutilfinning," sagði Katrín Ómarsdóttir miðjumaður Íslands í leikslok.

Katrín átti góðan leik á miðjunni hjá Íslandi og hefur verið í lykilhlutverki í undanförnum leikjum.

„Jú. Ég vona bara að ég verði í góðu hlutverki áfram. Þetta er auðvitað gaman og eitthvað sem maður vinnur að. Mitt markmið og okkar er að ná eins gott og við getum sem lið," sagði Katrín og viðurkenndi að stelpurnar hafi verið orðnar taugaóstyrkar þegar gestirnir jöfnuðu metin.

„Ég get ekki logið því að það fór um okkur þegar þær jöfnuðu 2-2. En þetta gerðist líka í fyrri leiknum. Fáum tvö mörk á okkur eftir að hafa skorað tvö, hvers vegna veit ég ekki en við þurfum að skoða það. Þær eru með ágætislið en við erum með betra lið og kláruðum þetta."

Snjólaug á Egilsstöðum hvatningin

Tónlistarmyndband með íslensku landsliðsstelpunum sem birtist á veraldarvefnum í gærkvöldi hefur vakið mikla athygli. Í laginu syngja Rakel Hönnudóttir og Mist Edvardsdóttir lag gegn einelti en landsliðskonurnar birta öll skilaboð í baráttunni gegn samfélagsmeininu.

„Ég var á Facebook fyrir um mánuði síðan. Þar setti stelpa að nafni Snjólaug frá Egilsstöðum inn stöðuuppfærslu þess efnis að hún væri lögð í einelti. Ég sendi henni skilaboð og velti svo fyrir mér að við stelpurnar í landsliðinu værum stór hópur og fyrirmynd á Íslandi sem gæti haft jákvæð áhrif," sagði Katrín sem samdi lagið.

„Við höfum ekki mikinn pening á milli handanna en getum gert hluti sem kosta ekki mikinn pening. Þá kom ég með þá hugmynd um að setja saman lag, gera myndband og gefa tilbaka til samfélagsins. Eins og þið sjáið gaf samfélagið okkur stóra gjöf í dag og er stór ástæða þess að þetta gekk upp hjá okkur," sagði Katrín og horfði upp í áhorfendastúkuna.

Textann að lagi Katrínar má sjá að neðan en lagið má sjá hér eða í spilaranum hér fyrir ofan. Óhætt er að segja að um frábært framtak sé að ræða hjá stelpunum og Katrín kann greinilega vel þá list að yrkja.

„Upp á síðkastið hef ég gert svolítið af því. Núna er ég atvinnumaður í fótbolta og hef svo mikinn tíma á milli handanna. Svo var ég internetslaus um daginn og þá þurfti maður bara að búa eitthvað til. Þetta gekk bara upp"

Textinn

Ég kem heim úr skólanum, mér líður ekki vel

lít í spegilinn og átta mig ekki á því hver ég er.

Ég er ekki eins og hinir, ég lít öðruvísi út,

hegða mér á annan hátt, en samt er staðreyndin þó sú

að ég er bara ég, þarf ég að breyta hver ég er?

til þess eins að fitta inn og fá að vera með.

Hvað sem ég geri sjá þau flísina í auga mínu

en ekkert þeirra tekur eftir bjálkanum í sínu.

Það er til tvenns konar fólk, þeir sem hífa þig upp

og þeir sem rífa þig niður.

Þeir reyna að rífa þig niður til að hífa sig upp

og þeir sem hífa þig upp eru alvöru vinir.

Ég læt þetta ekki á mig fá.

Ég er sterkari en það, stend upp fyrir sjáfri mér.

Það dýrmætasta sem ég á

er þetta líf og ég mun lifa því eins og ég er.

Þegar á endann er kominn vinna þeir sem breyta rétt.

Þú sérð samt fljótt að þessi leið er ekki alltaf létt.

Sá sem ranglæti mætir ekki, fylgir alltaf hinum.

Hjálpar ekk' og stendur ekki upp á móti vinum.

Mótlæti myndar manninn, sýnir úr hverju hann er gerður.

Ekki gefast upp þó heimurinn sé stundum harður.

Bítt'í skjaldarrendur og treystu eigin hjarta

fyrr en varir muntu sjá að þú átt framtíðina bjarta.

Það er til tvenns konar fólk, þeir sem hífa þig upp

og þeir sem rífa þig niður.

Þeir reyna að rífa þig niður til að hífa sig upp

og þeir sem hífa þig upp eru alvöru vinir.

Ég læt þetta ekki á mig fá.

Ég er sterkari en það, stend upp fyrir sjáfri mér.

Það dýrmætasta sem ég á

er þetta líf og ég mun lifa því eins og ég er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×