Franska liðið Marseille komst í kvöld í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar þrátt fyrir 2-1 tap fyrir Inter Milan á San Siro. Inter komst í 1-0 í leiknum en fékk á sig mark í uppbótartíma eins og í fyrri leiknum. Þessi mörk urðu ítalska stórliðinu að falli.
Inter Milan fékk tvö frábær færi á fyrstu tólf mínútum leiksins, fyrst Wesley Sneijder á 8. mínútu en svo Diego Milito á 12. mínútu. Staðan var markalaus í hálfleik en Milito kom Inter í 1-0 á 75. mínútu.
Það stefndi í framlengingu þegar Brandão jafnaði metin á annarri mínútu í uppbótartíma eftir langt útspark Steve Mandanda, markvarðar Marseille. Vörn Inter sofnaði þar á verðinum.
Steve Mandanda fékk síðan á sig víti og rautt spjald í blálokin en það skipti ekki máli að Giampaolo Pazzini skoraði úr vítinu og kom Inter í 2-1.
Marseille fagnaði gríðarlega í lokin en liðið fer áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

