Enski boltinn

Barry tryggði City sigur | Öll úrslitin í ensku úrvalsdeildinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Carlton Cole sér rautt gegn Everton.
Carlton Cole sér rautt gegn Everton. Nordicphotos/Getty
Gareth Barry tryggði Manchester City þrjú stig með marki á ögurstundu gegn botnliði Reading í ensku úrvalsdeildinni í dag. Carlton Cole skoraði og sá rautt í tapi West Ham gegn Everton. Þá náði Tottenham aðeins markalausu jafntefli á heimavelli gegn Stoke.

Hér fyrir neðan má sjá úrslit og umfjöllun um leikina sex sem hófust klukkan þrjú. Fyrr í dag vann Arsenal 1-0 útisigur á Wigan. Staðan í ensku úrvalsdeildinni.

West Ham 1-2 Everton


1-0 Carlton Cole (14.)

1-1 Victor Anichebe (64.)

1-2 Steven Pienaar (74.)

Carlton Cole kom West Ham yfir eftir stundarfjórðung. Hann skoraði þá með fínu skoti framhjá Tim Howard eftir að hafa farið framhjá Johnny Heitinga vörn Everton.

Gestirnir frá Liverpool jöfnuðu metin á 64. mínútu með fínu marki. Victor Anichebe skallaði þá fyrirgjöf Steven Pienaar snyrtilega í netið framhjá Robert Green í marki heimamanna.

Aðeins tveimur mínútum síðar urðu heimamenn fyrir áfalli þegar Carlton Cole fékk rauða spjaldið fyrir háskalega tilburði. Cole reyndi þá að ná til boltans með fótinn hátt á lofti. Laighton Baines reyndi að skalla sama bolta og féll til jarðar. Sóli Cole fór þó í síðu Baines sem varð ekki meint af. Dómnum var ekki haggað þrátt fyrir kröftug mótmæli heimamanna.

Gestirnir gengu á lagið og Pienaar kom þeim yfir þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Suður-Afríkumaðurinn og Leon Osman spiluðu þá skemmtilega saman og Pienaar kom knettinum yfir línuna.

Everton skaust upp í fjórða sæti deildarinnar með sigri. Liðið hefur 30 stig líkt og Arsenal og Tottenham en Chelsea á leik til góða með 29 stig í 6. sætinu.

Man. City 1-0 Reading

1-0 Gareth Barry (93.)

Neðsta lið deildarinnar sýndi frábæra baráttu í heimsókn sinni á Etihad-völlinn í Manchester. Lærisveinar Brian McDermott vörðust af kappi og áttu sín færi eftir föst leikatriði.

Manchester City tókst hins vegar að tryggja sér sigur á þriðju mínútu í viðbótartíma. Þá skoraði Gareth Barry með skalla úr teignum.

Manchester City minnkaði muninn á toppi deildarinnar í þrjú stig með sigrinum. Manchester United á hins vegar leik til góða gegn Swansea á morgun.

Tottenham 0-0 Stoke

Gylfi Þór Sigurðsson kom inná sem varamaður hjá Tottenham á 79. mínútu í markalausu jafntefli Tottenham og Stoke.

Það var fátt um fína drætti hjá báðum liðum og áhorfendur á White Hart Lane fengu lítið fyrir aðgangseyrinn í dag.

Gylfi Þór komst næst því að skora fyrir heimamenn en hörkuskalli hans var frábærlega varinn af Amir Begovic.

West Brom 2-1 Norwich

0-1 Rob Snodgrass (22.)

1-1 Zoltan Gera (43.)

2-1 Romelu Lukaku (82.)

Belginn Romelu Lukaku, lánsmaður frá Chelsea, fékk dauðafæri á 20. mínútu fyrir West Brom en skot hans var vel varið af Declan Rudd í marki Norwich. Skömmu síðar komust gestirnir yfir.

Norwich fékk aukaspyrnu rétt utan teigs og Rob Snodgrass setti knöttinn í netið. Spyrna Skotans var góð en Ben Foster hafði hönd á bolta og átti að gera betur.

Gestirnir jöfnuðu metin á 43. mínútu, markamínútunni. Þá fylgdi Ungverjinn Zoltan Gera eftir skalla Jonas Olsson sem Rudd varði í slána. Rudd var undir mikilli pressu og hefði mögulega átt að fá dæmda aukaspyrnu.

Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleiknum. Það var hins vegar Lukaku sem skoraði sigurmark heimamanna með fallegum skalla átta mínútum fyrir leikslok.

Southampton 0-1 Sunderland

0-1 Steven Fletcher (43.)

Gestirnir frá Sunderland komust yfir á 42. mínútu með marki Skotans Steven Fletcher. Fletcher fékk þá boltann eftir skot Stephane Sessegnon og sendi boltann í netið.

Fletcher hefur farið á kostum í búningi Svörtu kattanna á leiktíðinni. Þegar hann skoraði markið hafði hann skorað átta mörk úr fimmtán skotum sínum á leiktíðinni. Ótrúleg tölfræði.

Ekkert mark var skorað í síðari hálfleik og gestirnir fögnuðu stigunum þremur. Sunderland hefur ekki tapað leik í deildinni þegar Fletcher hefur verið á skotskónum.

Newcastle 1-0 QPR

1-0 Shole Ameobi (81.)

Shola Ameobi fagnaði nýfengnu landsliðssæti hjá Nígeríu með því að tryggja Newcastle sigur gegn QPR. Ameobi skoraði eina markið níu mínútum fyrir leikslok og batt enda á taplausa hrinu QPR undir stjórn Harry Redknapp.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×