Enski boltinn

Villas-Boas: Bale er einn af þeim bestu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham, hrósaði mikið Gareth Bale, eftir að velski leikmaðurinn skoraði þrennu á móti Aston Villa á annan í jólum. Þetta var fyrsta þrenna Bale í ensku úrvalsdeildinni en hann hafði áður skorað þrennu í Meistaradeildinni.

Gareth Bale hefur nú skorað 9 mörk í 16 deildarleikjum á leiktíðinni þar af sex mörk í sex deildarleikjum frá og með 17. nóvember.

„Gareth er einn af þeim bestu. Hann er að hjálpa liðinu mikið og við gerum okkur vel grein fyrir því að hann er okkar dýrmætasta eign. Í Englandi geta menn hinsvegar ekki keypt upp samninga leikmanna og fá lið geta borgað markaðsverð fyrir mann eins og hann," sagði Andre Villas-Boas en Gareth Bale hefur verið sterklega orðaður við spænska liðið Real Madrid.

„Þetta var stór dagur fyrir hann að ná að skora sína fyrstu þrennu í ensku úrvalsdeildinni. Hann sýndi frábæra takta og tækni í þessum mörkum. Hann er að bæta sig á hverjum degi og hefur auk þess frábæran persónuleika. Um leið og honum líður enn betur innan liðsins mun hann geta spilað enn betur," sagði Villas-Boas.

„Skotin hans eru orðin hnitmiðuð og hann er að klára færin sín vel. Hann nýtur þess að komast í færin og vinstri fóturinn hans er yndislegur," sagði Villas-Boas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×