Enski boltinn

United með þriggja stiga forskot eftir markaveislu gegn Reading

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Meira að segja Anderson er búinn að skora.
Meira að segja Anderson er búinn að skora. Nordicphotos/Getty
Manchester United vann ótrúlegan 4-3 útisigur á Reading í ensku úrvasldeildinni í knattspyrnu í dag. Öll sjö mörk leiksins voru skoruð í fyrri hálfleik.

Manchester United vann 4-3 sigur á Reading í ótrúlegum leik í ensku úrvalsdeildinni á Madejski-leikvanginum í dag.

Fyrri hálfleikur var vægast sagt stórkostleg skemmtun þar sem skoruð voru sjö mörk á 26 mínútum. Hal Robson-Kanu kom heimamönnum yfir þegar hann hamraði boltann með vinstri fæti í netið við mikinn fögnuð stuðningsmanna Reading.

Gleðin var þó skammvinn því United skoraði tvö mörk á fjórum mínútum. Fyrst skoraði Brasilíumaðurinn Anderson með frábæru skoti úr þröngu færi í teignum. Adam Federici, Ástralinn í marki Reading, hefði þó getað gert betur í markinu.

Fjórum mínútum síðar brutu varnarmenn Reading klaufalega á Jonny Evans innan vítateigs. Wayne Rooney steig á punktinn og aldrei þessu vant lá boltinn í netinu. Liðsmenn United hafa verið klúðrað óvenju mörgum vítaspyrnum undanfarnar vikur en í þetta skiptið var Rooney öryggið uppmálið.

Heimamenn dóu ekki ráðalausir. Varnarmenn United sváfu á verðinum eftir hornspyrnu og Adam Le Fondre stangaði knöttinn í netið og jafnaði leikinn. Fjórum mínútum síðar léku liðsmenn Reading sama leik nema Sean Morrison sá um að skalla knöttin í netið. Heimamenn með forystu 3-2.

Wayne Rooney skoraði hins vegar annað mark sitt eftir hálftímaleik og enn jafnt, nú 3-3. Robin van Persie nýtti sér svo slæman varnarleik heimamanna og skoraði fjórða mark gestanna á 34. mínútu.

Fjörið hélt áfram í síðari hálfleik þótt hann stæði ekki samanburð við þann fyrri. Heimamenn áttu góðar tilraunir undir lok leiksins til þess að jafna metin en tókst ekki.

Með sigrinum náði United þriggja stiga forskot á granna sína í City á toppi deildarinnar. United hefur 36 stig en Reading hefur 9 stig í 19. sæti deildarinnar.


Tengdar fréttir

Michu sá um Arsenal og Liverpool vann | Úrslit dagsins

Spánverjinn Michu stal sviðsljósinu í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar Swansea vann útisigur á Arsenal. Liverpool vann eins marks sigur á Southampton og Manchester City og Everton skildu jöfn 1-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×