Enski boltinn

Michu sá um Arsenal og Liverpool vann | Úrslit dagsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Theo Walcott, liðsmaður Arsenal, trúir ekki sínum eigin augum.
Theo Walcott, liðsmaður Arsenal, trúir ekki sínum eigin augum. Nordicphotos/Getty
Spánverjinn Michu stal sviðsljósinu í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar Swansea vann útisigur á Arsenal. Liverpool vann eins marks sigur á Southampton og Manchester City og Everton skildu jöfn 1-1.

Umfjöllun um leiki dagsins má sjá hér fyrir neðan.

Manchester City 1-1 Everton

0-1 Fellaini (33.), 1-1 Carlos Tevez, víti (43.)

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en færin voru af skornum skammti. Marouane Fellaini kom gestunum yfir á 33. mínútu. Joe Hart varði fyrst frá Belganum sem fylgdi sjálfur á eftir og kom bláklæddum gestunum yfir.

Tíu mínútum síðar gerði Belginn sig sekan um slæm mistök þegar hann braut á Edin Dzeko innan teigs. Vítaspyrna var dæmd og Carlos Tevez, sem var í byrjunarliði City á nýjan leik, skoraði af öryggi úr spyrnunni.

Bæði lið fengu þokkaleg færi til að tryggja sér sigurinn í síðari hálfleik en urðu að sættast á skiptan hlut. Manchester City komst upp að hlið grannanna í United í toppsæti deildarinnar með 33 stig. City hefur betri markatölu en United á leik til góða gegn Reading síðar í dag.

Liverpool 1-0 Southampton
Markaskoraranum Daniel Agger var vel fagnað í dag.Nordicphotos/Getty
1-0 Daniel Agger (43.)

Liverpool réð ferðinni á Anfield og fékk tréverkið á marki Dýrlinganna að finna fyrir skothörku heimamanna. Jonjo Shelvey átti bylmingsskot í stöngina eftir um hálftímaleik og tíu mínútum síðar skaut Luis Suarez í þverslána úr aukaspyrnu.

Á markamínútunni tókst liðsmönnum Liverpool loksins að brjóta múrinn. Þá skoraði miðvörðurinn Daniel Agger með fallegum skalla. Rickie Lambert átti hörkuskot af 45 metra færi skömmu síðar en Pepe Reina varði vel í marki heimamanna sem leiddu í hálfleik.

Liverpool fékk færi til að bæta við mörkum í síðari hálfleik en eins marks sigur staðreynd.

Liverpool fór upp í 11. sæti deildarinnar. Liðið hefur 19 stig en Southampton hefur 12 stig í 18. sætinu.

Arsenal 0-2 Swansea
Michu er markahæstur í deildinni ásamt Luis Suarez með tíu mörk.Nordicphotos/Getty
0-1 Michu (87.)

0-2 Michu (91.)

Swansea vann óvæntan sigur á Arsenal en liðin mættust á Emirates-leikvanginum í Lundúnum.

Leikurinn olli töluverðum vonbrigðum enda tvö lið sem eru þekkt fyrir að spila fallega knattspyrnu. Færi voru fá en Svanirnir skoruðu tvívegis undir lokin og tryggðu sér sigur.

Spænski miðjumaðurinn Michu var enn á ný í sviðsljósinu. Í bæði skiptin slapp Michu einn inn fyrir vörn heimamanna og kláraði færin af stakri snilld.

Með sigrinum skaust Swansea upp fyrir Arsenal. Liðið er í 8. sæti deildarinnar með 23 stig en Arsenal hefur 21 stig í 10. sæti.

Michu hefur nú skorað tíu mörk í ensku úrvalsdeildinni, jafnmörg og Luis Suarez sem tókst ekki að skora í sigri Liverpool í dag.

Fulham - Tottenham
Liðsmenn Tottenham fögnuðu Sandro vel.Nordicphotos/Getty
0-1 Sandro (56.). 0-2 Jermain Defoe 0-3 Jermain Defoe (77.)

Tottenham vann góðan útisigur á Fulham á Craven Cottage. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Brasilíumaðurinn Sandro gestunum yfir með flottu skoti langt utan af velli.

Dimitar Berbatov og clint Dempsey mættu sínum fyrri félögum en það voru Dempsey og félagar frá Norður-London sem höfðu betur. Jermain Defoe skoraði tvö mörk með skömmu millibili stundarfjórðungi fyrir leikslok, það síðara eftir fallega sendingu Dempsey.

Gylfi Þór Sigurðsson kom inná sem varamaður hjá Tottenham fyrir Gareth Bale í síðari hálfleik. Gylfi átti fína innkomu hjá Tottenham og lagði upp fyrra mark Defoe.

Athygli vakti þegar Bale fékk gult spjald í fyrri hálfleik fyrir leikaraskap. Þetta er annar leikurinn í röð sem Walesverjinn er áminntur fyrir leikræn tilþrif.

Tottenham varð fyrir áfalli eftir stundarfjórðung þegar fyrirliði liðsins og miðvörður, Michael Dawson, þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. William Gallas kom inn á í stað Dawson.

West Brom 0-1 Stoke


0-1 Dean Whitehead (75.)

Stoke vann sjaldséðan útisigur þegar liðið sótti West Brom heim. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu gestirnir stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Dean Whitehead var þá mættur á teiginn og sendi boltann í netið eftir góðan undirbúning Kenwyne Jones og Michael Kightly.

West Brom hefur nú tapað tveimur leikjum í röð eftir frábæra byrjun. Liðið er í fimmta sæti með lakari markamun en Tottenham sem skaust upp í fjórða sætið með sigri á Fulham.

QPR - Aston Villa

0-1 Brett Holman (8.)

1-1 Jamie Mackie (18.)

Ástralinn Brett Holman kom gestunum frá Birmingham yfir eftir tíu mínútur. Holman átti þá gott vinstri fótar skot utan teigs sem Robert Green tókst ekki að verja þó hann hefði hönd á bolta.

Heimamenn jöfnuðu metin tíu mínútum síðar þegar Jamie Mackie, landsliðsmaður Skota, skoraði með fallegum skalla.

Clint Hill komst nálægt því að tryggja QPR sinn fyrsta sigur á tímabilinu en skalli hans skömmu fyrir leikslok small í þverslánni.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×