Erlent

Sendiherra Serbíu framdi sjálfsvíg

Heimir Már Pétursson skrifar
Branislav Milinkovic framdi sjálfsvíg og fulltrúum á utanríkisráðherrafundinum er brugðið.
Branislav Milinkovic framdi sjálfsvíg og fulltrúum á utanríkisráðherrafundinum er brugðið.
Fulltrúum á utanríkisráðherrafundi NATO ríkjanna í Brussel er brugðið eftir að sendiherra Serbíu hjá Atlantshafsbandalaginu, Branislav Milinkovic framdi sjálfsvíg á flugvellinum í Brussel.

Milinkovic var að ræða við kollega sína á léttum nótum í bílahúsi flugvallarins í gær, þegar hann skyndilega hoppaði yfir handrið og hrapaði niður nokkrar hæðir og lést. Ástæður sjálfsvígsins er mönnum enn ráðgáta, enda ber mönnum sem umgengust hann á fundinum í Brussel saman um að vel virtist liggja á honum.

Serbía á ekki aðild að NATO en er aðili að "Partnership for Peace" hluta bandalagsins og því með sendiherra á ráðherrafundinum. Milinkovic var vinsæll í Serbíu en hann var mikill andstæðingur Slobodans Milosevic á tímum ógnarstjórnar hans og eftir fall stjórnarinnar var Milinkovic settur í ýmis trúnaðarembætti, eins og hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og hjá NATO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×