Innlent

Karl var upp­tekinn á þriðju­dag

Stígur Helgason skrifar
Karl Wernersson bíður þess að réttarhöldin hefjist.
Karl Wernersson bíður þess að réttarhöldin hefjist. Mynd/ GVA

Karl Wernersson, fyrrverandi stjórnarformaður og aðaleigandi Milestone mætti fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun sem vitni í Vafningsmáli sérstaks saksóknara gegn Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni.

Karl átti upphaflega að bera vitni á þriðjudag en mætti ekki. Dómari gaf þá út formlega vitnakvaðningu á hendur honum.

Símon Sigvaldason héraðsdómari byrjaði á að krefja Karl skýringa á því hvers vegna hann mætti ekki á þriðjudag. Hann kvaðst hafa fengið óljóst símtal frá saksóknara á föstudag um mætinguna og einfaldlega verið upptekinn á þriðjudag. Símon brýndi fyrir honum að vitnaskylda væri æðri öðrum skyldum.

Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari tók þá til við að spyrja Karl um aðkomu hans að Vafningsviðskiptunum, meðal annars hvers vegna stjórnendur Milestone hefðu komið svo náið að undirbúningnum þegar málið snerist um Þátt International en ekki Milestone. Karl svaraði því til gjaldfelling láns Morgan Stanley til Þáttar hefði verið atriði „innan samstæðunnar“ og því hafi þótt eðlilegt að taka það fyrir „á æðsta level“.

Karl stoppaði stutt við í vitnastúkunni og var farinn innan fimm mínútna.

Þetta er þriðji dagur aðalmeðferðar málsins. Einnig verða teknar skýrslur af nokkrum starfsmönnum sérstaks saksóknara í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×