Íslenski boltinn

Veigar Páll: Ekkert öruggt að ég fari í Stjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson
Veigar Páll Gunnarsson Mynd/Anton
Veigar Páll Gunnarsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Stabæk og er á heimleið eftir farsælan níu ára feril sem atvinnumaður. Veigar var í viðtali hjá Hirti Hjartarsyni í Boltanum í morgun þar sem fram kom að ekkert væri ákveðið hvar hann léki á næsta tímabili. Líklegasti áfangastaðurinn væri Stjarnan en þó kæmu önnur lið til greina líka.

„Ég er búinn að ákveða það að koma heim til Íslands og njóta þess," sagði Veigar Páll Gunnarsson en er hann sáttur með hvernig atvinnumannaferillinn endaði? „Það er búið að vera vesen með þetta mál út í Noregi en engu að síður er ég sáttur við minn feril. Ég sný heim virkilega sáttur drengur," sagði Veigar Páll.

Veigar Páll endaði tímabilið með sínu gamla félagi Stabæk en liðið var í neðsta sæti deildarinnar þegar hann kom og tókst ekki að bjarga sér.

„Liðið var langneðst í deildinni þegar ég kom. Ég reyndi eins og ég gat að hjálpa þeim en það hefði þurft kraftaverk ef við ætluðum að náð því að halda okkur uppi. Ég hefði samt að öllum líkindum endað heima þó að við hefðum haldið okkur uppi," sagði Veigar Páll.

„Þetta snýst ekki um peninga hjá mér heldur gleðina sem ég fæ við að spila fótbolta. Ég tel rétt hjá mér að koma heim núna, ég er ennþá tiltölulega ungur og ætti að geta gert eitthvað heima," sagði Veigar Páll en hvar ætlar Veigar Páll að spila næsta sumar.

„Ég hef ekki heyrt frá neinum öðrum klúbbum heldur en Stjörnunni og ég veit um áhuga þaðan. Það lítur því út fyrir að ég spili í Stjörnunni. Ég vona að ég spili í Stjörnunni því það væri óskandi fyrir mig að enda þetta þar sem að ferillinn byrjaði," sagði Veigar Páll en hann er ekki tilbúinn að gefa það út að hann spili í Garðabænum.

„Það er ekki hundrað prósent öruggt að ég fari í Stjörnuna en það væri óskandi," sagði Veigar Páll en það er hægt að heyra allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×