Enski boltinn

Di Matteo stoltur af stjóratíð sinni hjá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Di Matteo.
Roberto Di Matteo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Di Matteo var í gær rekinn sem knattspyrnustjóri Chelsea eftir aðeins 262 daga í starfi en hann talar vel um Chelsea í viðtali við BBC eftir brottreksturinn sem kom mörgum á óvart enda aðeins sex mánuðir síðan að liðið vann Meistaradeildina og enska bikarinn undir hans stjórn.

„Ég er rosalega stoltur af þeim árangri og þeim titlum sem ég náði með félaginu. Ég hef djúpa og ótakmarkaða ástríðu fyrir Chelsea Football Club," sagði hinn 42 ára gamli Roberto Di Matteo sem lék á sínum tíma 175 leiki fyrir félagið.

„Það var mikill heiður fyrir mig að taka við stjórastarfinu hjá félagi sem ég elskaði að spila fyrir og félagi sem á sérstakan stað í hjarta mínu," sagði Di Matteo.

„Að vinna Meistaradeildina í Munchen var besta afrekið í sögu félagsins og án nokkurs vafa hápunktur ferils míns til þessa hvort sem við erum að tala um leikmanna- eða stjóraferilinn. Það er minning sem ég mun varðveita svo lengi sem ég lifi," sagði Di Matteo.

„Ég vil þakka öllu því fólki sem ég vann með hjá Chelsea og ekki síst stuðningsmönnum félagsins sem studdu vel við bakið á liðinu þann tíma sem ég var stjóri. Ég vil nota tækifærið og óska þeim öllum góðs gengis það sem eftir lifir tímabilsins sem og í framtíðinni," sagði Di Matteo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×