Enski boltinn

New York Red Bulls vill ekki að Henry spili með Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry.
Thierry Henry. Mynd/Nordic Photos/Getty
Thierry Henry hefur áhuga á að spila fyrir Arsenal á meðan bandaríska deildin er í fríi og Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur tekið vel í að fá Henry aftur á láni eins og á síðasta tímabili.

Vandamálið er bara að forráðamenn New York Red Bulls ætla sér núna að koma í veg fyrir að Henry geti spilað með Arsenal. Henry er orðinn 35 ára gamall en átti eftirminnilega endurkomu í Arsenal-liðið á síðustu leiktíð.

„Almennt séð þá erum við ekki hrifnir af þessu. Tímabilið er okkar langt og leikmennirnir okkar fá ekki mikið frí. Það er best að þeir eyði þessu fríi til að safna orku og kröftum fyrir næsta tímabil," sagði Andy Roxburgh nýr yfirmaður knattspyrnumála hjá New York Red Bulls.

„Eins og staðan er núna þá hefur engin óskað eftir lánsamningi við okkur. Þetta mun reyndar alltaf fara eftir einstaklingum og eftir aðstæðunum. Það er samt mjög ólíklegt að þessu yrði núna," bætti Roxburgh við.

Thierry Henry átti frábært tímabil með New York Red Bulls og var með 15 mörk og 12 stoðsendingar í 25 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×