Fótbolti

Guardiola er ekkert að flýta sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. Mynd/Nordic Photos/Getty
Umboðsmaður Pep Guardiola segir að þjálfarinn ætli ekki að taka neina ákvörðun um framhaldið hjá sér fyrr en á næsta ári. Guardiola gerði frábæra hluti með Barcelona í fjögur tímabil en hætti síðan óvænt með liðið síðasta vor og ákvað að taka sér eins árs frí.

Guardiola hefur verið sterklega orðaður við Chelsea, bæði í júlí sem og eftir að félagið rak Roberto Di Matteo í gær. Spænski þjálfarinn hefur hinsvegar staðið fastur á því að hann ætlaði að virða þetta ársfrí sitt. Josep Maria Orobitg, umboðsmaður Pep Guardiola, segir að það sé ekkert öruggt að skjólstæðingur sinn snúi aftur í boltann í sumar.

„Ég var með honum fyrir fimmtán dögum og hann sagði mér þá að hann myndi ekki ákveða neitt fyrir en í janúar eða febrúar. Fyrir þann tíma mun hann hvorki ákveða það hvaða lið hann tekur við eða hvort hann snúi yfir höfuð til baka í sumar," sagði Josep Maria Orobitg í viðtali við brasilíska blaðið Lance.

„Það skiptir engu máli hvað gerist fram að því. Hann einn mun taka þessa ákvörðun og hann er ekkert að flýta sér. Eins og er þá er hann bara með sinni fjölskyldu, að hvíla sig, lesa bækur og horfa á fótbolta. Í janúar mun hann fara að hugsa um hvaða lið hann vill taka við," sagði Orobitg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×