Íslenski boltinn

Atli Sveinn aftur heim í KA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Sveinn Þórarinsson.
Atli Sveinn Þórarinsson. Mynd/Heimasíða KA
Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði Valsmanna, hefur ákveðið að spila næsta sumar með KA í 1. deildinni en hann skrifaði undir tveggja ára samning í morgun. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.

Miðvörðurinn er því genginn á ný í raðir KA eftir átta ára fjarveru frá sínu uppeldisfélagi en Atli Sveinn hefur spilað með Valsmönnum frá 2004 og hefur verið fyrirliði Hliðarendaliðsins í fimm sumur.

Atli Sveinn spilaði upp alla yngri flokka KA og upp í meistaraflokk. Á árunum 1997 til 1999 spilaði hann 43 leiki með KA í deild og bikar. Hann fór árið 2000 til Svíþjóðar og spilaði með Örgyte til 2004 en kom svo aftur til KA og spilaði með liðinu eitt keppnistímabil. Frá árinu 2005 hefur Atli Sveinn verið í herbúðum Vals.

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að taka slaginn með KA er að ég skynja núna að það mikill kraftur í félaginu og mér finnst virkilega vera lag til þess að taka skrefið og koma liðinu upp í efstu deild, þar sem ég tel að það eigi heima. Ég hef alltaf fylgst með KA-liðinu úr fjarlægð og það er skemmtileg blanda af reyndum KA-mönnum, góðum erlendum leikmönnum og mjög efnilegum strákum sem eru að koma upp. Síðast en ekki síst hefur félagið fengið til sín mjög góðan þjálfara, sem verður virkilega gaman að vinna með," segir Atli Sveinn í viðtali á heimasíðu KA.

Það er hægt að finna lengra viðtal við Atla Svein með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×