Enski boltinn

Benitez: Torres þarf meiri hjálp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Rafael Benitez, stjóri Chelsea, ætlar að gera allt sem í hans valdi stendur til að snúa stuðningsmönnum Chelsea á sitt band.

Stuðningsmenn bauluðu á Benitez fyrir leik liðsins gegn Manchester City í gær en það var hans fyrsti leikur í stjórastarfinu. Honum lauk með markalausu jafntefli.

„Ég vil breyta viðhorfi stuðningsmannanna gagnvart mér. Til þess þarf ég að leggja mikla vinnu á mig, gera mitt besta og vinna leiki," sagði hann.

„Ég vil vinna leiki fyrir þetta félag. Ég vona að stuðningsmenn deili þessari skoðun minni því þeir eru á bandi liðsins. Vonandi verða þeir einnig á mínu bandi í næstu leikjum."

Það gæti reynst lykilatriði fyrir Benitez að fá sóknarmanninn Fernando Torres í gang. „Það sást að hann var að reyna sitt allra besta. Liðið verður að hjálpa Fernando og skapa fleiri marktækifæri fyrir hann. Þá mun hann skora fleiri mörk."

„Það er ekki hægt að búast við því að sóknarmenn skori öll sín mörk upp á sitt einsdæmi. Aðrir leikmenn sem eru hjá félaginu þurfa því að skapa fleiri og betri færi fyrir hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×