Enski boltinn

Beckham óskaði Redknapp góðs gengis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp sat í morgun fyrir svörum blaðamanna í fyrsta sinn sem knattspyrnustjóri QPR.

David Beckham er á leið frá bandaríska MLS-liðinu LA Galaxy og hafði verið orðaður við QPR. Redknapp greindi svo frá því að hann hafi fengið SMS-skilaboð frá kappanum.

„Hann óskaði mér góðs gengis. Við höfum þó aldrei rætt þann möguleika að hann kmoi hingað. Ég hef ekki rætt við stjórnarformanninn um leikmannamál - það er enn langt í janúar," sagði Redknapp sem var nálægt því að taka við þjálfun úkraínska landsliðsins. „Mér stóð til boða fjögurra ára samningur áður en QPR kom til sögurnnar."

Redknapp var á meðal áhorfenda þegar að QPR tapaði fyrir Manchester United um helgina, 3-1. QPR er í neðsta sæti deildarinnar að loknum þrettán umferðum með aðeins fjögur stig. Liðið hefur enn ekki unnið leik á tímabilinu.

„Ég vil halda QPR í ensku úrvalsdeildinni. Okkur mun takast það ef leikmennirnir leggja jafn mikið á sig og ég. Eigendur félagsins lögðu mikinn pening í leikmannakaup í sumar og það skiptir miklu máli."

„Ég þekki leikmannahópinn og nú þurfum við að skoða hvern leikmann fyrir sig. Þetta snýst um að búa til besta mögulega liðið úr þessum hópi. Við þurfum að snúa genginu okkur í hag sem allra fyrst. Þetta verður áskorun en ég hlakka mikið til starfsins."

Hann segir að nú sé QPR hans lið. „Barnabörnin mín hafa öll fengið QPR-búninga," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×