Enski boltinn

West Ham mun grípa til aðgerða vegna níðsöngva

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leiknum um helgina.
Úr leiknum um helgina. Nordic Photos / Getty Images
West Ham gaf í dag út yfirlýsingu þar sem því var heitið að grípa til aðgerða gegn þeim stuðningsmönnum sem sungu níðsöngva á leik liðsins gegn Tottenham um helgina.

Stuðningsmennirnir gerðu bæði grín að helför gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni auk þess að minnast á Adolf Hitler. Þá gerðu þeir lítið úr hættulegri líkamsárás á stuðningsmann Tottenham í Róm á Ítalíu í síðustu viku.

„Við höfum verið í sambandi við Tottenham til að aðstoða félagið við rannsókn á framkomu lítils hóps suðningsmanna og meinta níðsöngva þeirra á leiknum," sagði í yfirlýsingu West Ham.

„Við munum grípa til eins harðra aðgerða og mögulegt er gegn þeim stuðningsmönnum, meðal annars með því að setja þá í lífstíðarbann hjá félaginu, sem verða uppvísir að slíkri hegðun."

„Enginn stuðningsmaður West Ham var handtekinn vegna ofbeldis eða kynþáttahaturs allt síðasta tímabil og því kom þetta okkur á óvart."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×