Enski boltinn

Benayoun: Mikil vonbrigði að heyra níðsöngvana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Yossi Benayoun, Ísraelinn í liði West Ham, segir að níðsöngvar stuðningsmanna félagsins um helförina og Adolf Hitler hafi valdið sér gríðarlegum vonbrigðum.

Nokkrir stuðningsmanna West Ham komu fram með þessum hætti á leik liðsins gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Þá gerðu þeir einnig grín að stuðningsmanni síðarnefnda liðsins sem var stunginn í Rómarborg á Ítalíu í síðustu viku.

Félagið hefur ákveðið að grípa til aðgerða og hefur þegar dæmt einn stuðningsmann sem sást gera nasistakveðju í ævilangt bann frá leikjum sínum.

„Samband mitt við stuðningsmenn West Ham hefur verið frábært frá fyrsta degi, bæði nú og þegar ég var hér síðast," skrifaði Benayoun á Twitter-síðu sína en hann er hjá West Ham sem lánsmaður frá Chelsea.

„Þess vegna voru það mikil vonbrigði að heyra söngvana í gær. Það var mjög vandræðalegt."

„En við verðum að muna að þetta var bara lítill hópur stuðningsmanna. Ég er viss um að enska knattspyrnusambandið og West Ham muni gera allt sem hægt er til að finna þá og refsa þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×