Enski boltinn

Wenger: Lítið svigrúm til þess að gera betur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wenger hefur stýrt liði Arsenal frá 1996.
Wenger hefur stýrt liði Arsenal frá 1996. Nordicphotos/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að hæfileikar í starfi knattspyrnustjóra séu engu minni nú en tímabilið 2003-2004 þegar hann leiddi lið sitt til sigurs í ensku úrvalsdeildinni án þess að tapa leik.

Töluvert hefur borið á óánægju meðal stuðningsmanna Arsenal á tímabilinu. Hluti þeirra lét franska stjórann heyra það er hann skipti Olivier Giroud af velli fyrir Francis Coquelin í markalausu jafntefli gegn Aston Villa á laugardaginn.

„Þú veist ekkert hvað þú ert að gera," heyrðist sungið meðal stuðningsmanna Arsenal á Villa Park. Wenger telur að skoðunin sé ekki útbreidd hjá stuðningsmönnum Lundúnarliðsins að því er Guardian greinir frá.

Arsenal mætir Everton á Goodison Park í kvöld en eitt stig skilur liðin að í fimmta og sjötta sæti deildarinnar. Wenger segir stuðningsmenn Arsenal þurfa að gera raunhæfa kröfu til liðsins.

„Við höfnuðum í þriðja sæti á síðustu leiktíð. Í sannleika sagt tel ég liðið ekki hafa haft burði til þess að standa sig betur. Líkt og þegar við unnum úrvalsdeildina án þess að tapa leik, sem engu öðru liði hefur tekist, þá er lítið svigrúm til þess að gera betur. Að tímabilinu loknu vil ég geta horft á sjálfan mig í spegli og hugsað: „Gerði ég allt sem ég gat?" Það er allt og sumt," segir Wenger.

Theo Walcott, kantmaður Arsenal, er klár í slaginn fyrir leik kvöldsins og sömu sögu er að segja um Marouane Fellaini, miðjumann Everton, sem missti af jafnteflinu gegn Norwich um helgina vegna leikbanns.

Belgíski miðjumaðurinn hefur verið lofaður fyrir frammistöðu sínan á tímabilinu. Hann hefur þó einnig verið gagnrýndur fyrir grófan leik.

„Sóknarleikur Everton snýst um hann. Hann er leikmaðurinn sem þeir leita til. Hann er ekki grófur leikmaður. Hann er snjall leikmaður," segir Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×