Enski boltinn

Bale í aðalhlutverki gegn Liverpool | Tæpir sigrar Manchester-liðanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mario Balotelli skoraði sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni í ár.
Mario Balotelli skoraði sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni í ár. Nordicphotos/Getty
Englandsmeistarar Manchester City og grannar þeirra í United unnu nauma sigra á andstæðingum sínum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Gareth Bale var í aðalhlutverki í 2-1 sigri Tottenham á Liverpool og þá skildu Everton og Arsenal jöfn 1-1.

Chelsea náði aðeins markalausu jafntefli á heimavelli gegn Fulham í öðrum leik liðsins undir stjórn Rafael Benitez. Þá unnu Swansea og Stoke sæta sigra á heimavöllum sínum meðan Southampton og Norwich skildu jöfn á St. Mary's.

Umfjöllun um leikina má sjá hér að neðan.

Tottenham 2-1 Liverpool

1-0 Aaron Lennon (7.)

2-0 Gareth Bale (16.)

2-1 Sjálfsmark (72.)

Gareth Bale gerði tvær atlögur að marki Liverpool á fyrstu fimm mínútum leiksins. Fyrst átti Pepe Reina í miklu basli með aukaspyrnu Walesverjans sem þó var beint á markið. Sekúndum síðar fékk Bale gott færi eftir mistök Steven Gerrard en skotið fór framhjá markinu.

Gestirnir frá Liverpool réðu ekkert við Bale sem skömmu síðar brunaði upp vinstri kantinn, sendi fyrir á Aaron Lennon sem skoraði af stuttu færi. Jordan Henderson fékk gott færi eftir tæpan stundarfjórðung en virkaði sjálfstraustslaus í góðu færi og heimamenn sluppu með skrekkinn.

Enski miðjumaðurinn var á ferðinni skömmu síðar þegar hann braut á Clint Dempsey rétt utan teigs. Aukaspyrna Bale breytti um stefnu af hausnum á Henderson og hafnaði í netinu framhjá varnarlausum Pepe Reina.

Gestirnir frá Liverpool sóttu í sig veðrið og þurfti Kyle Walker að bjarga á línu eftir 35 mínútna leik. Dembele virtist brjóta á Gerrard innan teigs en ekkert var dæmt. Boltinn hrökk af Hugo Lloris í Luis Suarez og þaðan í átt að marki þar sem Walker bjargaði á ögurstundu.

Heimamenn leiddu með tveimur mörkum eftir afar fjörugan fyrri hálfleik þar sem Liverpool var síst lakari aðilinn. Gestirnir voru alltaf líklegir til þess að minnka muninn en það voru þó heimamenn sem sáu um að skora.

Aaron Lennon bjargaði þá skalla Steven Gerrard á línu eftir hornspyrnu Jonjo Shelvey. Spyrna Lennon fór hins vegar beint í andlitið á Bale og þaðan í netið. Staðan orðin 2-1 en skömmu áður hafði Gylfi Þór Sigurðsson komið inná sem varamaður fyrir Dempsey.

Luis Suarez fékk dauðafæri til að jafna metin á 80. mínútu eftir frábæran undirbúning Daniels Agger. Skot Úrúgvæjans fór hins vegar rétt yfir markið.

Athygli vakti í síðari hálfleiknum þegar Gareth Bale fékk gult spjald fyrir leikaraskap. Hann er eini leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíð sem hefur tvisvar fengið áminningu fyrir leikræna tilburði. Mark, stoðsending, sjálfsmark og gult spjald fyrir leikaraskap uppskera kvöldsins hjá Walesverjanum eldfljóta.

Suarez vildi fá vítaspyrnu skömmu fyrir leikslok eftir samskipti við William Gallas en fékk ekkert fyrir sinn snúð frekar en aðrir leikmenn Liverpool sem máttu sætta sig við tap 2-1. Niðurstaðan er sérstkalega svekkjandi fyrir gestina í ljósi þess að þeir voru betri aðilinn, þó litlu hafi munað, stærstan hluta leiksins.

Tottenham lyfti sér upp fyrir Arsenal og Everton í 5. sæti deildarinnar með sigrinum. Liverpool missti Stoke upp fyrir sig og situr í 12. sæti deildarinnar.

Everton 1-1 Arsenal
Aukaspyrna Gareth Bale hrekkur af Henderson og í mark Liverpool.Nordicphotos/Getty
0-1 Theo Walcott (1.)

1-1 Marouane Fellaini (28.)

Theo Walcott var ekki lengi að stimpla sig inn í lið Arsenal að nýju eftir fjarveru í markalausa jafnteflinu gegn Aston Villa um liðna helgi. Kantmaðurinn afgreiddi knöttinn glæsilega í markið með hægri fæti úr teignum eftir aðeins 52 sekúndur og kom Lundúnarliðinu á bragðið.

Marouane Fellaini kom sömuleiðis inn í lið Everton eftir eins leiks fjarveru vegna leikbanns og lét strax til sín taka. Skot hans með vinstri fæti, hans veikari, af 25 metra færi fór neðst í vinstra hornið og belgíski miðjumaðurinn enn að reynast Everton dýrmætur.

Arsenal var meira með boltann í fyrri hálfleik en í þeim síðari mættu heimamenn sterkari til leiks. Szczesny þurfti að taka á honum stóra sínum þegar hann varði fastan skalla frá Sylvain Distin eftir klukkustundarleik. Skömmu síðar lét Fellaini vaða á markið utan teigs en aftur varði Pólverjinn vel.

Heimamenn vildu fá vítaspyrnu þegar Mikael Arteta virtist brjóta á Steven Pienaar innan teigs en ekkert var dæmt. Þá varði Szczesny aukaspyrnu Nikika Jelavic ágætlega.

Svo fór að hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og liðin sættust á skiptan hlut. Jafnteflið þýðir að Tottenham skaust upp fyrir bæði lið sem sitja í 6. sæti (Everton) og 7. sæti deildarinnar.

Man. Utd 1-0 West Ham
Van Persie fagnar marki sínu.Nordicphotos/Getty
1-0 Robin van Persie (1.)

Robin van Persie var aðeins 31 sekúndu að koma heimamönnum yfir á Old Trafford. Hollendingurinn tók þá frábærlega á móti sendingu frá Michael Carrick, lék á einn varnarmann West Ham áður en skot hans hrökk af James Collins og yfir Jussi Jääskeläinen í marki Hamranna.

Svekkjandi byrjun á leiknum fyrir gestina en snerting Collins var í fyrsta skipti sem liðsmenn West Ham komu við boltann í leiknum. Daninn Anders Lindegaard stóð í marki heimamanna sem stýrðu gangi mála í fyrri hálfleiknum án þess að bæta við mörkum. Lærisveinar Sam Allardyce eygðu því enn von þegar gengið var til búningsherbergja.

Vonin um sigur var þó lítil enda United aldrei tapað leik í ensku úrvalsdeildinni á heimavelli eftir að hafa haft forystu í hálfleik. Það breyttist ekki því United landaði eins marks sigri og heldur því áfram eins stigs forskoti sínu á grannana í City á toppi deildarinnar.

Þess má geta að þegar Jonny Evans, miðvörður United, braut af sér í leiknum var það fyrsta brot hans í deildinni í heilar ellefu og hálfa klukkstund. Ótrúleg staðreynd.

Chelsea 0-0 Fulham
Torres komst ekkert áleiðis gegn varnarmönnum Fulham.Nordicphotos/Getty
Fátt var um fína drætti þegar Lundúnarliðin Chelsea og Fulham mættust á Stamford Bridge. Fernando Torres var á sínum stað í framlínu Chelsea en landi hans, Juan Mata, hóf leikinn á bekknum.

Þegar ekkert mark hafði verið skorað í rúma klukkstund brást Rafa Benitez þolinmæðin og skipti Mata inná fyrir Ryan Betrand. Sú skipting hafði lítil áhrif á gang mála í leiknum.

Ekkert gekk þó hjá heimamönnum og mátti Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Chelsea, sætta sig við annað markalausa jafnteflið í fyrstu tveimur liðsins undir hans stjórn.

Fernando Torres hefur nú spilað rúma tíu og hálfa klukkustund í ensku úrvalsdeildinni án þess að skora mark. Ótrúleg staðreynd hjá markahæsta leikmanni Evópumótsins í sumar.

Wigan 0-2 Man. City

0-1 Mario Balotelli (69.)

0-2 James Milner (72.)

Heimamenn stóðu lengi vel í Englandsmeisturunum á DW-leikvanginum en sváfu á verðinum í tvígang um miðjan síðari hálfleikinn. Líkt og í leik Wigan gegn Reading um síðustu helgi átti Ali Al Habsi, markvörður heimamanna, sök í máli.

Eftir ágætt spil James Milner, Maicon og David Silva lét Gareth Barry vaða á markið utan teigs. Habsi missti laust skot hans frá sér fyrir fætur Mario Balotelli sem skoraði í annarri tilraun.

Von Wigan um stig úr leiknum varð að engu þremur mínútum síðar. Aftur lagði Gareth Barry upp markið. Nú sendi hann boltann á James Milner sem smellhitti boltann utan teigs. Í vinklinum söng hann og tryggði gestunum tveggja marka sigur.

City er áfram í öðru sæti deildarinnar stigi á eftir Manchester United.

Swansea 3-1 West Brom

1-0 Michu (9.)

2-0 Wayne Routledge (12.)

3-0 Wayne Routledge (39.)

3-1 Romelu Lukaku (45.+)

Heimamenn í Swansea mættu mun beittari til leiks. Michu skoraði strax á 9. mínútu af stuttu færi eftir vel útfærða sókn. Enski kantmaðurinn Wayne Routledge tvöfaldaði forystu Walesverjanna aðeins þremur mínútum síðar eftir flott spil og áhorfendur á Liberty-leikvanginum brostu út að eyrum.

Spútniklið síðustu leiktíðar hélt áfram að hlæja að West Brom sem komið hefur liða mest á óvart það sem af er leiktíð. Á 39. mínútu tættu heimamenn enn á ný í sig vörn gestanna áður en Routledge skoraði eftir fyrirgjöf frá vinstri. Romelu Lukaku minnkaði muninn eftir hornspyrnu í viðbótartíma fyrri hálfleiks og gaf gestunum líflínu.

Ekkert mark var skorað í síðari hálfleik og heimamenn unnu góðan sigur. Swansea er í 8. sæti deildarinnar eftir sigurinn en West Brom í því fjórða.

Southamton 1-1 Norwich

1-0 Rickie Lambert (32.)

1-1 Rob Snodgrass (45.)

Heimamenn í Southampton hafa átt góðu gengi að fagna undanfarnar vikur og á því var engin breyting í kvöld. Aukaspyrna Lallana skapaði usla í teig Norwich áður en markahrókurinn Rickie Lambert kom boltanum í netið.

Áður en fyrri hálfleikur var allur jöfnuðu gestirnir frá Norwich metin. Skotinn Rob Snodgrass skoraði á lokamínútu hálfleiksins og staðan jöfn í hálfleik.

Svo fór að liðin skildu jöfn. Southampton situr í 18. sæti með 11 stig en Norwich hefur 16 stig í 13. sæti.

Stoke 2-1 Newcastle

0-1 Papiss Cisse (46.)

1-1 Jonathan Walters (81.)

2-1 Cameron Jerome (85.)

Cameron Jerome og Jonathan Walters skoruðu mörk með fjögurra mínútna millibili seint í síðari hálfleik og tryggðu Stoke enn einn eins marks sigurinn á Britannia.

Stoke lyfti sér upp í 9. sæti deildarinnar með sigrinum en Newcastle situr í 14. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×