Enski boltinn

Ólíklegt að Beckham snúi aftur í ensku úrvalsdeildina

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Það eru litlar líkur á því að David Beckham leiki í ensku úrvalsdeildinni á ný.
Það eru litlar líkur á því að David Beckham leiki í ensku úrvalsdeildinni á ný. Nordic Photos / Getty Images
Það er mikil eftirspurn eftir starfskröftum enska fótboltamannsins David Beckham en hann mun leika sinn síðasta leik með LA Galaxy í bandarísku MLS deildinni um næstu helgi. Beckham telur litlar líkur á því að hann fari á ný í ensku úrvalsdeildina.

Hinn 37 ára gamali Beckham hefur leikið með LA Galaxy undanfarin sex ár en lið hans mætir Houston í úrslitum MLS deildarinnar. Beckham lék með Manchester Untited á Englandi áður en hann fór til Real Madrid á Spáni.

„Ég er heppinn, það er ekki alltaf sem lið hafa áhuga á 37 ára gömlum leikmanni. Það eru nokkur spennandi tilboð sem hafa borist," sagði Beckham í viðtali við Sky fréttastofuna. Harry Redknapp, sem nýverið tók við knattspyrnustjórastöðunni hjá QPR hefur sagt að hann hafi áhuga á að fá Beckham til liðsins.

„Ég hef sagt það áður að ég held að það yrði erfitt að leika á ný í ensku úrvalsdeildinni. Ég lék með stærsta fótboltaliði heims, Manchester United, og ég á erfitt með að sjá mig leika með öðru liði á Englandi. Maður veit samt aldrei hvað gerist, ég á samt von á því að við munum eyða meiri tíma á Englandi en áður. Það er gott fyrir börnin að sjá afa og ömmu," sagði Beckham m.a. í viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×