Enski boltinn

Cantona: Ég er til í að taka við Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Cantona.
Eric Cantona. Mynd/AFP
Eric Cantona er goðsögn hjá Manchester United eftir að hafa unnið sex stóra titla með liðinu á árunum 1993 til 1997. Frakkinn eftirminnilegi heldur því opnu í viðtali við Daily Mirror að hann snúi aftur á Old Trafford í framtíðinni.

Cantona er orðinn 46 ára gamall og starfar núna sem yfirmaður knattspyrnumála hjá bandaríska fótboltafélaginu New York Cosmos. Hann vill þó að Sir Alex Ferguson sitji í stjórastólnum hjá United um ókomna framtíð en ef að Skotinn hættir þá er Cantona klár í slaginn.

„United er einstakt félag og auðvitað myndi ég segja já. Í dag er ég að einbeita mér að starfi mínu hjá New York Cosmos en ef mér yrði boðið starfið einhvern tímann, af hverju ekki?," sagði Cantona og fór síðan að tala um fiska, kolkrabba og krabbadýr eins og honum er einum lagið.

Eric Cantona var fjórum sinnum enskur meistari á þeim fimm tímabilum sem hann spilaði með félaginu. Eina tímabilið sem hann varð ekki meistari þá missti hann af stórum hluta leiktíðarinnar vegna leikbanns. Cantona vann líka tvöfalt með Manchester United 1993–94 og 1995–96.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×