Enski boltinn

Benteke dreymir um að spila með Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Christian Benteke, leikmaður Aston Villa, segir að það sé draumur sinn að spila einn daginn með Arsenal.

Benteke er belgískur landsliðsmaður og hefur skorað fjögur mörk í tíu leikjum með Aston Villa. Hann kom til félagsins frá Genk í heimalandinu í sumar.

Hann segist vera ánægður hjá Aston Villa en óvíst er hvort að stuðningsmenn félagsins séu ánægðir með þessar yfirlýsingar hans.

„Ég óttast ekki að eignast óvini hjá Aston Villa þó svo að ég segist elska Arsenal. Maður getur sagt mun verri hluti," sagði hann í viðtali sem birtist í Daily Express í dag.

„Í dag er ég leikmaður Villa, enda er það rétta félagið fyrir mig á þessum tímapunkti. Ég hef uppfyllt draum minn um að spila í ensku úrvalsdeildinni. Nú vil ég vera hér eins lengi og ég get."

„Arsenal er félagið sem ég elska. Thierry Henry spilaði þar og hann er besti leikmaður heims í mínum huga. Hann var átrúnaðargoð mitt í æsku."

Benteke greindi einnig frá því að hann hafi í fyrstu talið að Aston Villa væri staðsett í Lundúnum - ekki Birmingham.

„Þegar ég samdi við félagið vissi ég ekki hvar liðið spilaði. Ég héld að þetta væri Lundúnarfélag. En Yassine El Ghanassy, vinur minn og leikmaður West Brom, hringdi þá í mig og sagðist vera ánægður með að fá mig til Birmingham sem væri í grennd við sig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×