Enski boltinn

Wenger: Derby-leikirnir eru gríðarlega mikilvægir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger fagnar hér ásamt aðstoðarmönnum sínum í leiknum á móti Tottenham á síðustu leiktíð.
Arsene Wenger fagnar hér ásamt aðstoðarmönnum sínum í leiknum á móti Tottenham á síðustu leiktíð. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er á því að úrslitin úr leik erkifjendanna Arsenal og Tottenham á morgun hafi mikil áhrif á það hvernig baráttan um Meistaradeildarsætin komi til með að þróast.

Arsenal hefur endað einu sæti fyrir ofan Tottenham undanfarin þrjú tímabil og það þarf að fara aftur til ársins 1995 til að finna tímabil þar sem Spurs-liðið endaði ofar en Skytturnar.

„Úrslitin í derby-leikjunum geta haft mikil áhrif á það hvort liðið nær Meistaradeildarsætinu. Tottenham hefur verið að berjast við okkur um Meistaradeildarsætin síðustu ár en það er samt stöðugleikinn sem er mikilvægastur í þeirri baráttu," sagði Arsene Wenger.

„Þegar við vorum að vinna deildina hér á árum áður þá voru þeir ekki meðal efstu liðanna en þeir hafa nálgast okkur á síðustu árum. Okkur hefur samt alltaf tekist að vera fyrir ofan þá," sagði Wenger.

Tottenham gat náð þrettán stiga forskoti á Arsenal þegar liðin mættust síðast í febrúar síðastliðnum en þá voru bara tólf leikir eftir. Tottenham komst í 2-0 í leiknum en Arsenal svaraði með fimm mörkum og tryggði sér sigur. Arsenal náði síðan þriðja sætinu af Tottenham sem var það síðasta sem gaf sæti í Meistaradeildinni.

„Leikurinn í fyrra var síðasta tækifærið okkar til að ná þeim og leikurinn í ár er einnig mjög mikilvægur. Allir Lundúna-derby leikir eru gríðarlega mikilvægir. Við höfum verið að tapa stigum að undanförnu og þetta er því mjög gott tækifæri til að komast aftur á rétta braut," sagði Wenger.

„Ég hef tekið þátt í þessum leikjum í sextán ár og geri mér því vel grein fyrir mikilvægi þeirra fyrir alla sem tengjast Arsenal og Tottenham," sagði Wenger að lokum.

Leikur Arsenal og Tottenham hefst klukkkan 12.45 á morgun og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×