Enski boltinn

Di Matteo: Kom sér vel fyrir mig að vera rekinn frá West Brom

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Di Matteo, stjóri Chelsea.
Roberto Di Matteo, stjóri Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Di Matteo, stjóri Chelsea, segir að brottrekstur sinn frá West Brom hafi í raun komið sér vel fyrir hann. Di Matteo mætir um helgina í fyrsta sinn á sinn gamla heimavöll sem stjóri Chelsea.

Roberto Di Matteo var knattspyrnustjóri West Bromwich Albion frá 2009 til 2011 en hann var rekinn eftir 0-3 tap á móti Manchester City 5. febrúar 2011. Liðið var þá aðeins búið að vinna einn af síðustu níu leikjum sínum.

„Sjáið bara hvar ég sit núna svo að ég er ekki viss um að þetta hafi verið svo slæmt fyrir mig," sagði Roberto Di Matteo á blaðamannafundi fyrir leik West Bromwich Albion og Chelsea.

„Það eru mörg dæmi um það að hlutirnir gangi ekki upp hjá stjóra hjá ákveðnu félagi. Þeir náðu árangri áður og hefur einnig gengið vel eftir að ég fór," sagði Di Matteo.

West Bromwich Albion hefur blómstrað undir stjórn Steve Clarke í vetur og liðið er eins og er í 5. sæti deildarinnar aðeins fjórum stigum á eftir Chelsea.

Roberto Di Matteo hefur náð flottum árangri með Chelsea-liðið sem varð bæði bikarmeistari og Evrópumeistari undir hans stjórn síðasta vor. Liðið hefur unnið 24 af 40 leikjum undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×