Enski boltinn

Martinez: Suarez heppinn að fá ekki rautt spjald

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Roberto Martinez, knattspyrnustjóri Wigan, segir að Luis Suarez hafi verið heppinn að vera ekki rekinn af velli í viðureign Liverpool og Wigan í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Martinez sagði á blaðamannafundi eftir leikinn að Úrúgvæinn hefði átt að fá rautt spjald fyrir að stíga á David Jones, miðjumann Wigan.

„Hann var mjög heppinn því dómarinn sá ekki þegar hann steig á David Jones," sagði Martinez.

Atvikið átti sér stað á 63. mínútu en þá steig Suarez af krafti á fót Jones. Dómarinn lét atvikið afskiptalaust en Jones varð ekki meint af.

„Hann slapp með skrekkinn í dag. Hann var heppinn," bætti Martinez við.

Martinez bættist í hóp knattspyrnustjóra á Englandi sem hafa gagnrýnt framherjann undanfarnar vikur. David Moyes, stjóri Everton, taldi Suarez hafa átt að fá reisupassann í viðureign liðanna í október. Þá hefur Tony Pulis, stjóri Stoke, sagt að setja eigi Suarez í leikbann fyrir að blekkja dómarana.

Suarez skoraði tvívegis í öruggum 3-0 sigri Liverpool í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×